Hver er Guðjón Valur Sigurðsson?

Guðjón Valur Sigurðsson í leik Íslands og Japan i janúar ...
Guðjón Valur Sigurðsson í leik Íslands og Japan i janúar 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Guðjón Valur Sigurðsson hóf í dag keppni á sínu 21. stórmóti í handknattleik á ferlinum þegar flautað var til leiks í viðureign Íslands og Svíþjóðar í Split í Króatíu.

Guðjón er mættur til leiks í lokakeppni Evrópumóts í 10. skipti en hann hefur auk þess átta sinnum tekið þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins og þrisvar í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna.

Hann er markahæstur allra leikmanna í lokakeppni EM frá upphafi með 256 mörk í 51 leik, fyrir leikinn í dag.

Guðjón Valur lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Ítalíu á alþjóðlegu móti í Haarlem í Hollandi 15. desember 1999, þá tvítugur að aldri, og skoraði 2 mörk í leiknum.

Hann lék í fyrsta skipti með Íslandi í lokakeppni stórmóts í janúar árið 2000, úrslitakeppni EM í Króatíu.

Guðjón Valur Sigurðsson með silfurverðlaunin í Peking 2008.
Guðjón Valur Sigurðsson með silfurverðlaunin í Peking 2008. Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Guðjón Valur hefur leikið á öllum stórmótum sem Ísland hefur tekið þátt í frá þeim tíma. HM í Frakklandi 2001, EM í Svíþjóð 2002, HM í Portúgal 2003, EM í Slóveníu 2004, ÓL í Aþenu 2004, HM í Túnis 2005, EM í Sviss 2006, HM í Þýskalandi 2007, EM í Noregi 2008, ÓL í Peking 2008, EM í Austurríki 2010, HM í Svíþjóð 2011, EM í Serbíu 2012, ÓL í London 2012, HM á Spáni 2013, EM í Danmörku 2014, HM í Katar 2015, EM í Póllandi 2016, HM í Frakklandi 2017 og nú síðast EM í Króatíu 2018.

Hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010.

Guðjón Valur Sigurðsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2006 af Samtökum ...
Guðjón Valur Sigurðsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2006 af Samtökum íþróttafréttamanna. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Guðjón Valur var kjörinn íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna árið 2006.

Guðjón Valur varð markakóngur heimsmeistarakeppninnar í Þýskalandi árið 2007 með 66 mörk.

Guðjón Valur var valinn í úrvalslið Ólympíuleikanna í Peking árið 2008 og í úrvalslið EM 2012 og aftur 2014.

Hann hefur fyrir leikinn gegn Svíum leikið 343 landsleiki fyrir Íslands hönd, er næstleikjahæstur frá upphafi, og hefur skorað í þeim 1.798 mörk.

Hinn 7. janúar 2018 varð Guðjón Valur markahæsti landsliðsmaður heims í karlaflokki. Hann fór þá fram úr Peter Kovacs sem skoraði 1.797 mörk fyrir Ungverjaland á árunum 1973 til 1995.

Guðjón Valur Sigurðsson í leik með AG Köbenhavn.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með AG Köbenhavn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Guðjón Valur er uppalinn í Gróttu og hóf meistaraflokksferilinn með Gróttu/KR árið 1995, sextán ára gamall. Hann lék með liðinu í þrjú ár, tvö í efstu deild og eitt í B-deild. Hann skoraði 44 mörk í 32 leikjum í efstu deild og 100 mörk í 16 leikjum í B-deild.

Hann gekk til liðs við KA 1998 og lék með liðinu í þrjú ár í efstu deild. Hann skoraði 259 mörk í 60 leikjum í deildinni. 

Guðjón Valur gerðist atvinnumaður hjá Essen í Þýskalandi 2001 og lék með liðinu í fjögur ár í Bundesligunni. Hann missti aðeins af tveimur leikjum á fjórum árum, lék 134 deildarleiki og skoraði 498 mörk. Guðjón var í liði Essen sem lagði Magdeburg að velli í tveimur úrslitaleikjum í EHF-bikarnum vorið 2005.

Guðjón Valur gekk til liðs við Gummersbach í Þýskalandi sumarið 2005 og lék með liðinu í þrjú ár. Hann spilaði 94 deildarleiki með liðinu og skoraði 635 mörk. Fyrsta tímabilið, 2005-06, varð hann markakóngur Bundesligunnar.

Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Barcelona.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Barcelona. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hann gekk til liðs við Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi sumarið 2008 og lék með liðinu í þrjú ár. Guðjón missti af seinni hluta tímabilsins 2009-10 og fyrri hluta tímabilsins 2010-11 vegna meiðsla en hann lék 68 deildarleiki með liðinu og skoraði 290 mörk.

Guðjón flutti sig um set til Danmerkur sumarið 2011 og lék eitt tímabil með AG Köbenhavn. Þar varð hann bæði danskur meistari og bikarmeistari og skoraði 142 mörk í 31 deildarleik.

Hann fór aftur til Þýskalands sumarið 2012 og samdi við Kiel þar sem hann lék í tvö ár. Guðjón spilaði 67 af 68 leikjum liðsins í deildinni og skoraði 199 mörk. Hann varð þýskur meistari með liðinu bæði tímabilin og jafnframt bikarmeistari 2013.

Sumarið 2014 flutti Guðjón Valur til Spánar og lék með Barcelona í tvö ár. Hann varð spænskur meistari með liðinu bæði árin og vann Meistaradeild Evrópu með liðinu vorið 2015. Hann lék 56 deildaleiki með Barcelona og skoraði 239 mörk í þeim.

Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Rhein-Neckar Löwen.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Rhein-Neckar Löwen. Ljósmynd/Rhein-Neckar Löwen

Guðjón flutti aftur til Þýskalands sumarið 2016 og gekk á ný til liðs við Rhein-Neckar Löwen eftir fimm ára fjarveru. Hann vann þýska meistaratitilinn með liðinu vorið 2017 og skoraði 201 mark í 33 leikjum í deildinni. Þar með hefur hann orðið landsmeistari sex ár í röð, þrisvar í Þýskalandi, tvisvar á Spáni og einu sinni í Danmörku.

Guðjón hefur leikið í Meistaradeild Evrópu á hverju ári frá 2006 og spilar þar sitt tólfta tímabil á þessum vetri. Hann hefur spilað 148 leiki í deildinni og skorað 578 mörk. Fyrsti Meistaradeildarleikur Guðjóns var í Laugardalshöllinni 1. október 2006 með Gummersbach, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Guðjón skoraði hvorki meira né minna en 16 mörk í 38:26 sigri þýska liðsins.

Hann leikur áfram með Löwen tímabilið 2017-2018, hafði um áramót skorað 79 mörk í 15 leikjum og er í hópi markahæstu manna en lið hans er á toppi deildarinnar.

mbl.is