Króatar með þungar áhyggjur eftir áfall

Domagoj Duvnjak studdur af velli í leiknum í kvöld.
Domagoj Duvnjak studdur af velli í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skjáskot

Það var ekki bara bros á vörum gestgjafa Króatíu á Evrópumótinu í handknattleik þrátt fyrir tíu marka sigur gegn Serbíu, 32:22, í riðli Íslands í Split í kvöld.

Leikstjórnandinn Domagoj Duvnjak, skærasta stjarna liðsins, fór meiddur af velli þegar skammt var eftir og virðist sem hann hafi meiðst á hné. Hann var borinn af velli og eru það skelfilegar fréttir fyrir Króata og ekki síst Duvnjak sjálfan, sem var aðeins nýkominn til baka eftir erfið meiðsli.

Duvnjak er lærisveinn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel í Þýskalandi, en Alfreð lét hafa eftir sér fyrir EM að hann vildi ekki að Duvnjak yrði með á mótinu þar sem hann væri aðeins rétt nýstiginn upp úr meiðslum.

Lino Cervar, landsliðsþjálfari Króatíu, sagði á fréttamannafundi eftir leikinn að hann vissi ekki enn hvers kyns meiðslin væru en hann væri vitanlega með áhyggjur. Miðað við þær fréttir má teljast ólíklegt að hann verði með gegn Íslandi í næsta leik á sunnudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert