Sögulegur sigur á Svíum í fyrsta leik EM

Aron Pálmarsson í baráttu gegn Svíum í dag en hann …
Aron Pálmarsson í baráttu gegn Svíum í dag en hann stýrði leik íslenska liðsins af miklum dug. Ljósmynd/EHF

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann Svíþjóð í fyrsta leik á Evrópumótinu í Króatíu í kvöld. Eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik vann Ísland að lokum tveggja marka sigur, 26:24. Þetta var fyrsti sigur Íslands á Svíþjóð í upphafsleik á EM, en Svíar unnu Ísland í fyrstu leikjum á EM árið 2000 og 2008. Allt er þá er þrennt er á því heldur betur við.

Byrjun Íslands í leiknum var hreint mögnuð. Ísland skoraði nánast í hverri sókn á meðan varnarleikurinn small frá fyrstu mínútu hinum megin á vellinum. Ísland komst í 4:0 áður en Svíar komust á blað en Aron Pálmarsson mataði liðsfélaga sína með lykilsendingum og munurinn jókst jafnt og þétt.

Áður en stundarfjórðungur var liðinn af leiknum hafði Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar, tekið tvö leikhlé en staðan var 11:5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Mestur var munurinn níu mörk, 14:5, en þá slökuðu strákarnir okkar örlítið á í sókninni og skoruðu ekki í níu mínútur.

Björgvin Páll Gústavsson fór þó á meðan á kostum í markinu fyrir aftan frábæra vörn, en hann varði alls 12 skot í fyrri hálfleik. Þegar flautað var til hálfleiks var Ísland því með þægilega sjö marka forystu, 15:8.

Óþarflega mikil spenna í lokin

Svíþjóð skoraði tvö mörk á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og minnkaði muninn niður í fimm mörk, en þá sögðu strákarnir okkar stopp. Jafnt og þétt jókst forskotið á ný og þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var munurinn í fyrsta sinn kominn upp í tveggja stafa tölu 21:11.

Ísland slakaði hins vegar á klónni um miðjan síðari hálfleik og einum færri skoruðu Svíar þrjú mörk í röð. Það var ekki nóg til að vekja íslenska liðið og Svíar skoruðu alls sex mörk í röð á þessum kafla. Mikael Appelgren lokaði á meðan sænska markinu og Ísland beið í tæpar 10 mínútur eftir marki. Munurinn var þá kominn niður í fjögur mörk, 22:18.

Svíar minnkuðu muninn svo niður í þrjú mörk þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Íslenska liðið fór hins vegar ekki á taugum en spennan var hins vegar óþægilega mikil undir lokin, sérstaklega eftir yfirburði Íslands lengst af. 

Svíar skoruðu þrjú síðustu mörkin í lokin en tíminn var hlaupinn frá þeim og fagnaði Ísland að lokum tveggja marka sigri, 26:24.

Ólafur Guðmundsson var markahæstur hjá Íslandi með 7 mörk og næstir komu Arnór Þór Gunnarsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Rúnar Kárason með 5 mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 17 skot í markinu.

Næsti leikur Íslands er gegn Króatíu á sunnudagskvöld.

Svíþjóð 24:26 Ísland opna loka
60. mín. Lukas Nilsson (Svíþjóð) skoraði mark Þrumuskot yfir utan, en 50 sekúndur eftir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert