Spennan hentar Janusi betur

Janus fagnar marki sínu gegn Svíum.
Janus fagnar marki sínu gegn Svíum. Ljósmynd/Gordan Lausic

„Yfirleitt hentar mér betur að hafa spennustigið aðeins hærra,“ sagði Janus Daði Smárason við mbl.is að loknum leiknum gegn Svíum á EM. Janus kom kaldur inn á undir lok leiksins en hjálpaði til við að landa sigrinum 26:24. 

„Frekar er vandamál hjá mér að ná mér í gang dags daglega eða í venjulegum leikjum. Ég fíla mig í botn að fá að spila hér.“

Janus skoraði og fiskaði víti á lokakaflanum en hann hafði einungis komið við sögu seint í fyrri hálfleik. „Ég kom inn á með ferska fætur. Svíarnir höfðu bakkað aftur á teiginn. Þeir voru orðnir flatir og við frekar þreyttir held ég. Það var frábært fyrir mig að fá tækifæri og reyna að gera eitthvað gagn,“ sagði Janus í samtali við mbl.is í Split.

mbl.is