Svíar horfa til Noregs eftir tapið fyrir Íslandi

Jim Gottfridsson, leikmaður Svía, kominn í færi gegn Íslandi í ...
Jim Gottfridsson, leikmaður Svía, kominn í færi gegn Íslandi í kvöld án þess að Bjarki Már Gunnarsson eða Aron Pálmarsson komi vörnum við. Ljósmynd/EHF

Sænska karlalandsliðið í handknattleik er ekki búið að leggja árar í bát þrátt fyrir erfiða byrjun á Evrópumótinu í Króatíu eftir tap fyrir Íslandi í kvöld, 26:24.

Svíar hugga sig við það að hugsa til baka til Evrópumótsins í Póllandi sem fram fór fyrir tveimur árum og hverju frændur þeirra Norðmenn lentu í. Noregur mætti þá Íslandi í fyrsta leik í riðlakeppninni en tapaði og öll sund virtust lokuð. Noregur vann hins vegar næstu tvo leiki sína í riðlinum á meðan Ísland tapaði báðum leikjum sínum. Noregur fór því áfram í milliriðla en Ísland féll úr leik.

Norðmenn gerðu reyndar gott betur og fóru alla leið í undanúrslit en höfnuðu að lokum í fjórða sæti.

„Ég held við getum það [gert eins og Noregur] en þá megum við ekki spila svona aftur. En við verðum þá líka að vinna Serbíu og svo getum við talað um næstu skref,“ sagði Jim Gottfridsson, leikmaður Svía í leikslok, en hann var markahæstur þeirra með fimm mörk.

mbl.is