Væri svolítið tómlegt

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari
Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari mbl.is/Hari

„Ég er enginn Gaui,“ sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari og hló þegar Morgunblaðið innti hann eftir því hversu oft hann hefði verið fulltrúi Íslands á stórmótum sem leikmaður og þjálfari. Átti hann þar vitaskuld við fyrirliðann Guðjón Val Sigurðsson sem keppt hefur fyrir A-landsliðið á stórmótum síðan aldamótaárið 2000.

Þegar Guðjón fékk tækifæri á EM í Króatíu árið 2000 var Geir einmitt nýbúinn að láta staðar numið sem leikmaður eftir flottan landsliðsferil. „Stórmótin hjá mér eru líklega komin á annan tuginn en það sem vantar hjá mér eru Evrópumótin. Það var varla búið að finna þá keppni upp þegar ég var að spila. Ísland fór í fyrsta skipti á EM árið eftir að ég hætti í landsliðinu,“ sagði Geir.

Spurður um hver munurinn sé að vera á stórmóti sem leikmaður eða þjálfari segir Geir þjálfarana hafa mun fleiri verkefni á sinni könnu eins og gefur að skilja.

„Munurinn er auðvitað gríðarlega mikill. Sem leikmaður er maður hluti af hópnum og maður einbeitir sér þar töluvert að því að vera sjálfur í lagi. Á mörgum stórmótum var ég reyndar fyrirliði og þá hafði ég fleiri skyldum að gegna. Sem þjálfari er þetta allt önnur vinna. Ég hef oft sagt í gríni að það sé djók að vera leikmaður miðað við það að vera þjálfari en öllu gríni fylgir þó einhver alvara. Sem þjálfari þarf maður að vera skrefinu á undan. Skipuleggja þarf allar æfingar og hvað skal ræða á öllum fundum. Ég kvarta ekki því þjálfarastarfið er skemmtilegt þótt það sé öðruvísi en hlutverk leikmannsins.“

Fólki þykir gaman að horfa

Handboltalandsliðið á sérstakan stað í hjörtum Íslendinga og þannig hefur það verið um langa hríð. Kann Geir einhverja skýringu á því?

„Lengi vel var þetta nánast eina íþróttin þar sem við gátum virkilega látið ljós okkar skína á alþjóðavettvangi. Kannski hafði það sitt að segja. Hvað boltagreinarnar varðar þá hafa fleiri greinar komið sterkar inn á Íslandi og samkeppnin því aukist. Ég held að handboltinn hafi hins vegar alltaf hentað okkur Íslendingum vel. Bæði sem stemningsíþrótt en einnig skemmtileg fyrir leikmennina. Í gegnum tíðina hefur okkur tekist að skapa okkur þennan sess að fólki þykir gaman að horfa á landsliðið. Það væri kannski svolítið tómlegt ef ekki væri stórmót á dagskrá hjá Íslendingum í janúar,“ benti Geir á.

Sjá allt viðtalið í 16-síðna aukablaði um EM sem fylgir Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert