Danir sigu fram úr gegn Ungverjum

Mikkel Hansen fagnar einu af sex mörkum sínum fyrir Danmörku ...
Mikkel Hansen fagnar einu af sex mörkum sínum fyrir Danmörku í sigri liðsins gegn Ungverjalandi í kvöld. AFP

Danmörk bar sigur úr býtum, 32:25, þegar liðið mætti Ungverjalandi í seinni leik dagsins í D-riðli í Evrópumótinu í handbolta sem leikið er í Króatíu þessa dagana.

Jafnt var á öllum tölum framan af leiknum, en um miðbik fyrri hálfleiks skildi leiðir og Danir tóku frumkvæðið í leiknum. Danmörk náði fimm marka forystu þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og landaði að lokum sjö marka sigri. 

Rasmus Lauge Schmidt og Mikkel Hansen drógu vagninn í sóknarleik Danmerkur, en Rasmus Lauge Schmidt var markahæstur í liði Dana með sjö mörk og Mikkel Hansen kom næstur með sex mörk.

Mate Lekai skoraði mest fyrir Ungverjaland eða fimm mörk talsins og Donat Bartok var næstmarkahæstur með fjögur mörk. 

Danmörk mætir Tékklandi sem steinlá fyrir Spáni fyrr í dag í annarri umferð D-riðils á mánudaginn kemur. Ungverjaland og Spánn mætast í hinum leik annarrar umferðar riðilsins sama dag.  

mbl.is