Duvnjak er ekki úr leik

Domagoj Duvnjak studdur af velli í leiknum í gærkvöld.
Domagoj Duvnjak studdur af velli í leiknum í gærkvöld. Ljósmynd/Skjáskot

Meiðsli Króatans Domagojs Duvnjaks eru ekki eins alvarleg og talin var í fyrstu en hann fór meiddur af leikvelli í 10 marka sigri Króata á Serbum í EM í handknattleik í gær. Þetta kemur fram í frétt TV2.

Eftir óhappið í gær var króatíski þjálfarinn mjög áhyggjufullur vegna meiðslanna en skoðanir lækna á kappanum í gær og í dag hafa sýnt að Duvnjak muni líklega getað spilað á seinni stigum mótsins. 

„Það er ekki búið að útiloka frekari þátttöku Duvnjaks ennþá. Hásinin er ekki rifin en hann er meiddur á fæti. Það kemur í ljós síðar í dag hversu slæm meiðslin eru en við vonum að hann gæti æft með okkur innan nokkurra daga,“ sagði aðstoðarþjálfari króatíska landsliðsins, Hrvoje Horvat. Ísland mætir Króatíu á morgun og ljóst að kappinn verður ekki klár í slaginn fyrir þann leik.

Duvnjak hefur verið mikið frá vegna meiðsla á árinu 2017 en haft var eftir Alfreð Gíslasyni, þjálfara hans hjá Kiel í Þýskalandi, fyrir EM að hann vildi ekki að Duvnjak yrði með á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert