Hvað þýða úrslitin fyrir Ísland?

Bjarki Már Elísson býr sig undir að skjóta á markið ...
Bjarki Már Elísson býr sig undir að skjóta á markið í leiknum gegn Króötum í kvöld. Ljósmynd/Uros Hocevar

Eftir úrslit kvöldsins í A-riðli Evrópumóts karla í handknattleik í Króatíu er ljóst að viðureign Íslands og Serbíu á þriðjudagskvöldið verður hreinn úrslitaleikur um sæti í milliriðli mótsins.

Króatar unnu Íslendinga 29:22 og Svíar sigruðu Serba í fyrri leik dagsins, 30:25.

Króatía með 4 stig og Svíþjóð með 2 stig eru bæði örugg áfram. Svíarnir eru öruggir vegna þess að þegar lið eru jöfn að stigum ráða innbyrðis úrslit. Þó þeir tapi fyrir Króötum og Serbar vinni Íslendinga verða þeir alltaf fyrir ofan annaðhvort Serbíu eða Ísland vegna innbyrðis markatölu í leikjum sínum við þessi tvö lið.

Möguleikarnir eru hinsvegar þrír varðandi úrslitin í leik Íslands og Serbíu, sem er fyrri leikur kvöldsins en á eftir mætast Króatía og Svíþjóð.

Íslandi nægir alltaf jafntefli til að fara áfram. Þá verður liðið með 3 stig og sæti í milliriðli er tryggt.

Íslandi gæti nægt að tapa leiknum með eins til þriggja marka mun. Það er með þeim fyrirvara að Svíar nái ekki stigi gegn Króötum í seinni leik kvöldsins. Þá verða Króatar með 6 stig, Svíar með 2, Íslendingar 2 og Serbar 2 en Serbar sitja eftir með verstu markatöluna í innbyrðis viðureignum við Ísland og Svíþjóð.

Ef leikurinn tapast með einu til þremur mörkum en Svíar ná síðan stigi gegn Króötum er Ísland úr leik. Þá eru Ísland og Serbía með 2 stig hvort, en Svíar með 3 eða 4 stig, og Serbar fara áfram á innbyrðis úrslitunum.

Ef leikurinn tapast með fjórum mörkum eða meira er Ísland þegar úr leik, sama hvernig fer hjá Króatíu og Svíþjóð. Þá yrðu Svíar, Íslendingar og Serbar með 2 stig hver þjóð en markatala Íslands orðin lökust innbyrðis og þá er liðið úr leik.

En það er ljóst að fari Ísland í milliriðil mun liðið fara þangað með stigin 2 sem það fékk úr Svíaleiknum. Í því tilviki fara Svíar í milliriðil án stiga, nema þeir taki stig af Króötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina