Lærisveinar Kristjáns komnir á blað

Timothey N'Guessan var markahæstur hjá Frökkum.
Timothey N'Guessan var markahæstur hjá Frökkum. AFP

Svíþjóð hafði betur gegn Serbíu á EM í handbolta í dag, 30:25. Svíar eru þar með komnir á blað á mótinu eftir tapið gegn Íslandi í fyrsta leik. Serbía er hins vegar án stiga. Lærisveinar Kristjáns Andréssonar komust í 8:3 snemma leiks og var sigurinn aldrei í töluverðri hættu eftir það, þótt Serbar hafi minnkað muninn í 24:22, seint í leiknum. 

Albin Lagergren skoraði fimm mörk fyrir Svíþjóð eins og Nemanja Ilic hjá Serbum. Mikael Appelgren í marki þeirra sænsku varði 19 skot.

Lærisveinar Patreks Jóhannessonar í Austurríki töpuðu fyrir Frökkum í B-riðli, 33:26. Frakkar skoruðu þrjú fyrstu mörkin og voru yfir allan leikinn. Staðan í hálfleik var 17:12 og sterkt franskt lið átti ekki í vandræðum með að sigla sigrinum í hús. 

Timothey N'Guessan skoraði sjö mörk fyrir Frakka sem eru með tvo sigra eftir tvo leiki og Robert Weber skoraði fimm mörk fyrir Austurríki sem er án stiga. 

Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni í dag.
Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert