Óskar vill vinna hraðaupphlaupskeppnina

Óskar Bjarni Óskarsson á hliðarlínunni á EM.
Óskar Bjarni Óskarsson á hliðarlínunni á EM. Ljósmynd/Gordan Lausic

Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, lá í gær yfir liði Króata þegar mbl.is hitti hann að máli á hóteli liðsins í Split. Ísland mætir Króatíu í A-riðli á EM í kvöld. 

„Við erum búnir að klippa tvo leiki með þeim á móti Slóvenum sem spilaðir voru í október. Einnig höfum við kíkt á leik á móti Svartfjallandi í undirbúningnum fyrir EM og svo leikinn gegn Serbíu á EM á föstugdagskvöldið. Þeir geta spilað þrjár tegundir af varnarleik og við þurfum eiginlega að taka ákvarðanir um hvernig við viljum spila sóknina á móti þremur varnarútfærslum. Þeir geta spilað 5-1 vörn að hætti Balkanskagans en einnig tvær úrfærslur af 6-0 vörn. Við höfum auðvitað skoðað okkar leik á móti þeim í Póllandi 2016 og hvað fór þar úrskeiðis þótt þá hafi verið aðrir þjálfarar hjá báðum liðum. Að mörgu leyti er hugmyndafræði þeirra svipuð nú og hún var fyrir tveimur árum. Í vörninni þurfum við að glíma við gríðarlega margar klippingar og Króatarnir eru sterkir maður á móti manni. Króatar eru minna með hefðbundin leikkerfi eins og Svíarnir. En við þurfum að ráða við þessar klippingar og vera duglegir í hjálparvörn,“ sagði Óskar Bjarni. 

Hann bendir á að Króatar séu mjög klókir að verjast og hornamennirnir séu drjúgir í því að komast inn í sendingar og komast þá gjarnan í hraðaupphlaup einir á móti markverði. „Þeir þrífast á því að andstæðingurinn geri mistök í sókninni og þeir fá hraðaupphlaup í staðinn. Þegar lið leysa inn á línu á móti þeim og spila 4-2 þá eru þeir góðir í því að þvinga andstæðingana í erfiðar sendingar. Ef menn reyna langar sendingar þá eru hornamennirnir mjög duglegir að komast inn í þær. Hornamennirnir þeirra geta skorað 5-7 mörk í leik eftir slíka atburðarrás. Fyrir þá sem fylgjast vel með heim þá minnir þetta að einhverju leyti á vörnina sem ÍBV spilar og hefur gert vel. Við þurfum að ná góðri breytt í sóknina, skjóta vel á markið og vera fljótir til baka í vörnina. Eins og alltaf þá gæti orðið lykill á morgun að vinna hraðaupphlaupskeppnina.“

Domogaj Duvnjak, leikmaður Kiel, meiddist gegn Serbum og mun hafa tognað í kálfa. Duvnjak var meiddur fyrr í vetur og í gær var óvíst hvort hann gæti spilað gegn Íslandi eða ekki. Spurður um hvort það truflaði kortlagningu íslenska þjálfarateymisins á króatíska liðinu sagði Óskar svo ekki vera því þeir séu með undir höndum myndbönd af Króötum með og án Duvnjak.

„Í báðum leikjunum á móti Slóveníu var Duvnjak ekki með. En hann var með gegn Svartfjallandi og Serbíu. Við getum því séð muninn í þessum leikjum og hverjar áherslubreytingarnar eru. Í þeim fjórum leikjum Króata sem við skoðum mest þá er hann sem sagt með í tveimur þeirra. Ef það hefði ekki verið þannig þá hefði þessi óvissa truflað okkar undirbúning meira en hún gerir,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson við mbl.is 

mbl.is