„Þurfum að vera aðeins klókari“

Ómar Ingi Magnússon ásamt fyrirliðanum Guðjóni Val Sigurðssyni.
Ómar Ingi Magnússon ásamt fyrirliðanum Guðjóni Val Sigurðssyni. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ómar Ingi Magnússon spilaði mjög vel í fyrri hálfleik gegn Króatíu á EM í kvöld en heimamenn sigruðu 29:22 og lögðu grunninn að sigrinum með góðum kafla snemma í síðari hálfleik. 

„Mér fannst við vera mjög flottir í fyrri hálfleik. Við lentum þá þremur undir en náðum að minnka muninn í eitt mark 14:13 og það var góð staða í hálfleik fyrir okkur. Fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik hefðum við þurft að vera betri. Þá skutum við illa og markvörður þeirra varði vel. Við fórum að stytta sóknirnar á meðan Króatarnir voru einstaklega klókir. Þeir spiluðu lengi og voru sniðugir með boltann,“ sagði Ómar þegar mbl.is ræddi við hann í Split þegar úrslitin lágu fyrir. 

Krefjandi er að sækja gegn Króötum því þeir eru duglegir að trufla andstæðingana og stela boltanum ef menn gæta sín ekki. „Þeir þrífast svolítið á því að þvinga andstæðingana í tæknimistök og keyra þá fram þegar færi gefst. En þess á milli geta þeir verið sultuslakir. Við þurfum að vera aðeins klókari og nýta betur færin sem við fáum. Það var gaman að mæta Króötum á þeirra heimavelli en leiðinlegt að þetta hafi ekki farið betur. En við verðum tilbúnir í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert