„Vantaði pínu heppni“

Geir Sveinsson á hliðarlínunni á EM.
Geir Sveinsson á hliðarlínunni á EM. Ljósmynd/EHF

„Við höfðum trú á því að við gætum gert þeim einhvern miska. Við lögðum upp með það og ég held að allir hafi séð að við höfðum trú á verkefninu,“ sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is að leiknum loknum gegn Króatíu í Split á EM í handknattleik. Króatía sigraði 29:22.

„Við spiluðum vel í fyrri hálfleik. Þar komu þrenn tæknimistök sem við fengum í bakið seint í fyrri hálfleik en náðum því til baka fyrir hlé og þá munaði bara einu marki. Á þeim tímapunkti var ég mjög sáttur og þá sérstaklega við vinnuframlagið hjá öllum. Þeir fóru út í að nota sjö menn í sókn í síðari hálfleik og mér fannst okkur ekki beinlínis ganga illa að verjast því heldur en okkur vantaði pínu heppni. Okkur tókst ekki að nýta tækifærið og keyra fram á þá þegar markið var opið. Eftir það var þetta brekka. Í sókninni fannst mér við leysa þeirra varnarleik mjög vel en við klikkuðum á of mörgum færum. Ég er ekki með töluna á hreinu en það voru nokkuð mörg færi sem fóru forgörðum,“ sagði Geir Sveinsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert