„Við vorum aular“

Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. Ljósmynd/Gordan Lausic

Janus Daði Smárason fékk stórt hlutverk í íslenska liðinu gegn firnasterkum Króötum á EM í Split í dag og skoraði þrjú mörk en Króatía hafði betur 29:22. 

Janus jafnaði 14:14 í fyrstu sókn síðari hálfleiks en þá skoraði Króatía fimm mörk í röð og tók völdin á vellinum. „Við vorum bara aular. Okkur tókst að búa til góð færi í byrjun seinni hálfleiks en það vantaði lokasendinguna eða skotið til að koma boltanum í netið. Það var svekkjandi. Þegar Króatar komast upp á lagið með sinn leik þá eru þeir fljótir að slíta sig frá okkur,“ sagði Janus við mbl.is að leiknum loknum. 

Þrátt fyrir jafnan fyrri hálfleik gekk fremur illa að stöðva Króata í leiknum. Leikmennirnir fyrir utan hjá Króötum nutu sín vel og markvarslan var lítil hjá íslenska liðinu. Við slíkar aðstæður hlýtur að vera erfitt að næla í útisigur á Króötum. „Í fyrsta lagi létum við markvörð þeirra verja of mikið í seinni og gerðum okkur erfitt fyrir þar. Vörn og markvarsla small ekki alveg í dag en Króatarnir voru hrikalega skynsamir og agaðir í sókninni. Ég verð að hrósa þeim fyrir það og þeir eru auðvitað hörkulið. Okkur tókst því miður ekki að stoppa þá betur í seinni hálfleik en við gerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert