Vorum algjörir klaufar

Janus Daði Smárason og Aron Pálmarsson í vörninni gegn Króötum …
Janus Daði Smárason og Aron Pálmarsson í vörninni gegn Króötum í kvöld. Ljósmynd/Uros Hocevar

Aron Pálmarsson var skiljanlega svekktur eftir 29:22-tap gegn Króötum á EM í handbolta í Split í kvöld. Hann segir tíu mínútna kafla í seinni hálfleik hafa ráðið úrslitum, en Króatar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti.

„Við vorum algjörir klaufar í upphafi seinni hálfleiks. Við fengum fínar opnanir en nýttum færin ekki nægilega vel. Þeir refsuðu okkur fyrir það og náðu góðu forskoti. Króatarnir eru bestir í því að halda forystu, sérstaklega á heimavelli. Þeir spila leiðinlega og lengi en á sama tíma vel. Fyrstu 5-10 mínúturnar fóru með þetta hjá okkur.“

Aron sá margt jákvætt í leik íslenska liðsins þrátt fyrir tapið.

„Við spiluðum flottan fyrri hálfleik og vorum nokkuð þéttir í vörninni. Þeir voru hins vegar sterkir í því sem þeir voru að gera þótt við lokuðum ágætlega á þá. Ég er bara svekktur vegna þessara fyrstu tíu í seinni hálfleik.“

Ísland mætir Serbíu á þriðjudaginn kemur í úrslitaleik um sæti í milliriðli. 

„Við förum í þann leik til að vinna, ná í þessi tvö stig og fara í milliriðil," sagði Aron að lokum í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert