„Þetta er líf hornamannsins“

Bjarki Már Elísson býr sig undir að skjóta á markið …
Bjarki Már Elísson býr sig undir að skjóta á markið í leiknum gegn Króötum í kvöld. Ljósmynd/Uros Hocevar

Bjarki Már Elísson lék fyrri hálfleik í vinstra horninu þegar Ísland tapaði fyrir Króatíu 29:22 á EM í Split í kvöld en fékk úr litlu að moða. 

Gegn varnarleik Króata verður oft lítið um hornaspil og sú varð niðurstaðan í kvöld. „Þegar maður horfir til baka þá er það svekkjandi. Það var gaman að fá að byrja inni á í þessum leik en ég hefði viljað fá einhver færi. Það væri eiginlega betra að fá færi og brenna af til að taka smá þátt í leiknum en þetta er líf hornamannsins. Stundum fær maður fullt af færum en stundum ekki neitt. Svona spilaðist þetta í kvöld,“ sagði Bjarki Már þegar mbl.is spjallaði við hann í Split en eftir jafnan fyrri hálfleik náði Króatía undirtökunum í seinni hálfleik við mikla ánægðu ríflega 11 þúsund stuðningsmanna. 

„Þetta var skemmtilegt í fyrri hálfleik og þá fannst mér við vera þokkalega með þá í fyrri hálfleik. En í seinni hálfleik var svekkjandi að gera ekki meiri spennu úr þessu. Mér fannst sumir dómarnir mjög sérstakir þótt ég nenni ekki að tuða yfir því. Við fengum góð færi í byrjun seinni hálfleiks og hefðum kannski átt að nýta þau betur. Þegar þeir spiluðu með 7 í sókn þá fengu þeir töluvert af færum af línunni og við hefðum kannski átt að reyna að senda þá meira inn úr hornunum. Við hefðum þurft að stöðva þá betur í þeirri stöðu en það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ sagði Bjarki enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert