Ísland tapaði og bíður örlaga sinna

Nemanja Ilic skorar fyrir Serba í leiknum í dag.
Nemanja Ilic skorar fyrir Serba í leiknum í dag. Ljósmynd/EHF

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapaði fyrir Serbíu, 29:26, í lokaleik sínum í A-riðli Evrópumótsins og þarf nú að bíða örlaga sinna. Ef Svíþjóð nær jafntefli eða sigri gegn Króatíu í síðari leik riðilsins í kvöld þá er Ísland úr leik.

Sigur eða jafntefli hefði tryggt Íslandi sæti í milliriðli, en vitað var að tap með 1-3 mörkum gæti dugað ef Svíþjóð nær ekki stigi eða sigri gegn Króatíu. Nú verður Ísland að treysta á það.

Leikurinn gegn Serbíu var jafn og spennandi strax frá byrjun og bæði lið byrjuðu af miklum krafti. Jafnt var á flestum tölum þar til Serbar náðu í fyrsta sinn tveggja marka forskoti í stöðunni 4:2 og var eftir það fetinu framar, en náði þó aldrei meira en tveggja marka forskoti.

Björgvin Páll Gústavsson var öflugur í markinu og varði 10 skot í fyrri hálfleiknum, á meðan sóknarleikurinn var kaflaskiptur. Of mörg færi fóru í súginn og íslenska liðið tapaði boltanum of oft en misstu þó Serbana aldrei of langt frá sér. Ísland komst svo yfir 9:8 á 20. mínútu og var það í fyrsta sinn síðan í stöðunni 2:1 sem Ísland var með forystu.

Serbar voru marki yfir þegar mínúta var eftir og var í sókn. Í stað þess að fara með tveggja marka forskot inn í hálfleikinn varði Björgvin í markinu og Ólafur Guðmundsson jafnaði metin í blálokin. Staðan 12:12 í hálfleik en fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson skoraði helming marka Íslands í fyrri hálfleik.

Allt hrundi þegar leið á seinni hálfleik

Ísland komst í fyrsta sinn tveimur mörkum yfir snemma í síðari hálfleik, 15:13, og náði undirtökunum í leiknum. Mestu munaði þá um að vörnin fór að smella betur saman. Strákarnir virtust fundið taktinn og þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður var munurinn kominn í fjögur mörk, 20:16 fyrir Ísland.

Serbarnir ætluðu sér þó ekki að missa íslenska liðið of langt fram úr sér og þeir skoruðu þrjú mörk gegn einu og minnkuðu muninn í tvö mörk á ný. Þegar tíu mínútur voru eftir voru Serbar enn frekar búnir að éta niður forskotið og jöfnuðu að lokum metin í 23:23.

Þetta gaf Serbum heldur betur byr í seglin og þeir komust yfir á ný í fyrsta sinn síðan í upphafi síðari hálfleiks. Þeir litu aldrei til baka eftir þetta og byggðu jafnt og þétt upp forystu. Þegar þrjár mínútur voru eftir skoruðu Serbar þrjú mörk í röð og náðu þriggja marka forskoti 29:26.

Ef Ísland tapaði með fjögurra marka mun var ljóst að liðið væri úr leik. Þegar sjö sekúndur voru eftir var Serbía með boltann og tók leikhlé. Björgvin Páll varði hins vegar lokaskotið og gaf Íslandi von um að halda áfram keppni á þessu móti. Lokatölur 29:26 fyrir Serbíu.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur hjá Íslandi með átta mörk, en sem fyrr segir þarf að bíða úrslita úr leik Króatíu og Svíþjóð sem hefst nú klukkan 19.30. Hann mun ráða örlögum Íslands á EM.

Serbía 29:26 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Ísland tapar með þremur mörkum og verður að bíða eftir úrslita úr leik Svíþjóðar og Króatíu sem hefst klukkan 19.30. Ef Króatía vinnur ekki þá er Ísland úr leik.
mbl.is

Bloggað um fréttina