Kæru Slóvena vísað frá (myndskeið)

Veselin Vujovic þjálfari Slóvena lét öllum illum látum eftir leikinn …
Veselin Vujovic þjálfari Slóvena lét öllum illum látum eftir leikinn gegn Þjóðverjum í gærkvöld. AFP

Framkvæmdastjórn evrópska handknattleikssambandsins hefur vísað frá kæru slóvenska handknattleikssambandsins sem kærði framkvæmd leiksins gegn Þjóðverjum á Evrópumótinu í handknattleik í gærkvöld.

Úrslitin standa en leiknum lyktaði með jafntefli, 25:25, eftir mikinn darraðadans á lokasekúndum leiksins þar sem dómarar leiksins þurftu að beita myndbandstækninni.

Vid Kavticnik kom Slóven­um yfir 24:23 þegar inn­an við mín­úta var eft­ir en Paul Drux jafnaði met­in fyr­ir Þjóðverja þegar 11 sek­únd­ur lifðu leiks. Blaz Janc kom svo Slóven­um yfir á loka­sek­únd­un­um á ný en eft­ir það mark og miðju Þjóðverja tók við mik­il reki­stefna þar sem dóm­ar­ar leiks­ins skoðuðu þrjú at­vik með aðstoð mynd­bands­tækni. Fyrst hvort miðja Slóvena hefði verið lög­leg, sem hún var. Þá hvort mark þeirra, 25.24, hefði verið lög­legt, sem það var, og loks at­vikið á miðjunni í lok­in.

Eft­ir að hafa gaum­gæft mynd­skeiðin ræki­lega fór svo að Slóven­inn Blaz Blag­ot­in­sek var rek­inn af velli fyr­ir að hafa staðið í miðju­hringn­um þegar fram­kvæma átti miðjuna og víti dæmt í kjöl­farið. Úr því skoraði Tobi­as Reichmann og jafnaði met­in.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá helstu atriðin úr leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert