Patrekur er á heimleið

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. AFP

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu í handknattleik eru á heimleið frá Króatíu eftir að þeir töpuðu fyrir Norðmönnum, 39:28, í lokaumferð B-riðils Evrópumóts karla í Porec í kvöld.

Austurríki varð að vinna leikinn til að komast í milliriðil og þá hefðu Hvít-Rússar haldið heimleiðis. Norðmenn hefðu reyndar fallið úr keppni ef þeir hefðu tapað með tíu mörkum í kvöld. Það var hins vegar aldrei í myndinni því norska liðið var með gott forskot allan tímann. Staðan var 18:14 í hálfleik og fljótlega dró enn frekar í sundur með liðunum.

Frakkland vann riðilinn með 6 stig, Noregur fékk 4 stig, Hvíta-Rússland 2 og Austurríki ekkert. Frakkar fara því áfram með 4 stig, Norðmenn með 2 en Hvít-Rússar hefja milliriðilinn án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert