Serbar reyna að koma á óvart

Geir Sveinsson landsliðsþjálfari.
Geir Sveinsson landsliðsþjálfari. Ljósmynd/Uros Hocevar

Erfitt er að átta sig á andstæðingi dagsins á EM í handknattleik: Serbum. Liðið hefur orðið fyrir skakkaföllum bæði í aðdraganda mótsins og síðast í gær var örvhenta skyttan Marki Vujin tekinn út úr hópnum vegna meiðsla.

Serbar töpuðu fyrstu tveimur leikjunum gegn Króötum og Svíum. Þar af leiðandi gæti verið nokkuð þungt yfir þeirra mönnum. En sigur gegn Íslandi gæti dugað til þess að komast áfram í milliriðilinn og því hljóta þeir að mæta grimmir til leiks gegn okkar mönnum.

Serbar eiga marga hæfileikaríka handboltamenn og nokkrir þeirra spila með sterkum liðum í Þýskalandi. Drasko Nenadic, samherji Bjarka Más Elíssonar hjá Füchse Berlín, er til að mynda mjög öflugur leikmaður. Athyglisvert er hins vegar að leikjafjöldi Serbanna með landsliðinu er ekki ýkja hár. Alla vega ekki í samanburði við íslenska landsliðið þar sem nokkrir leikmenn hafa leikið 200 A-landsleiki eða meira. Enginn leikmaður Serba er nálægt því að ná 200 leikjum. Fjórir í EM-hópnum hafa náð 100 A-landsleikjum og er Vujin einn þeirra.

„Lið Serba er pínu óútreiknanlegt,“ sagði landsliðsþjálfarinn, Geir Sveinsson, þegar Morgunblaðið spjallaði við hann um Serbana í gær. „Það sem við höfum séð í þeirra leikjum frá því í október þá höfum við varla tölu á öllum þeim varnaraðferðum sem þeir hafa beitt. Það er með ólíkindum. Þeir eru svolítið í því að reyna að koma andstæðingnum á óvart. Ekki bara inni á vellinum en einnig utan hans með alls kyns yfirlýsingum um hverjir geta verið með og hverjir ekki. Þegar upp er staðið snýst málið um handboltann sjálfan og hvað gerist inni á vellinum. Á þann þátt verðum við auðvitað að horfa og undirbúa okkur sem best fyrir einhver útspil hjá Serbum sem eiga að koma okkur á óvart,“ sagði Geir.

Eftir að Serbía varð sjálfstætt ríki hefur karlalið þeirra ekki staðið uppi sem sigurvegari á stórmótum. En þeir eiga fern verðlaun, tvenn á HM og tvenn á EM. Spiluðu þeir til úrslita á heimavelli á EM 2012.

Sjá allt um EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert