Slóvenar hóta að fara heim af EM

Veselin Vujovic landsliðsþjálfara Slóvena stóð í markinu í mótmælaskyni vegna …
Veselin Vujovic landsliðsþjálfara Slóvena stóð í markinu í mótmælaskyni vegna vítakasts sem Þjóðverjum var dæmt á lokasekúndu leiksins við Slóvena á EM í gærkvöldi. AFP

Slóvenar íhuga að draga lið sitt úr keppni og hætta þar með þátttöku á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í Króatíu. Ástæðan er sú að þeir telja sig hafa verið misrétti beittir af dómurum leiks þeirra við Þjóðverja í gærkvöldi. 

Franjo Bobinoc, forseti handknattleikssambands Slóveníu, og Goran Cvijic, framkvæmdastjóri hafa gefið sterklega í skyn að þeir íhugi alvarlega að draga liðið úr keppni fyrir lokaumferð C-riðils sem fram fer á morgun. Þá eiga Slóvena að mæta Svartfellingum en bæði lið eru í óvissu um að komast áfram í milliriðlakeppnina. 

Cvijic segir gera sér fyllilega grein fyrir að það geti dregið alvarlegan dilk á eftir sér ef landsliðið verður dregið úr keppni. Það muni koma niður á landsliðum Slóvena, yngri sem eldri á næstu árum.  Einnig velta forráðamenn handknattleikssambands Slóveníu fyrir sér að fara með málið fyrir Alþjóða íþróttadómstólin, CAS, í Sviss. Þeir telja að sig hafa miklu órétti beittir á mótinu.

Slóvenar eru afar ósáttir við frammistöðu dómara leiks þeirra við Þjóðverja í gær. Í leiknum þótti Slóvenum dómararnir draga taum þýska landsliðsins. Steininn mun hafa tekið úr að mati Slóvena þegar dómararnir tóku nokkrar mínútur í að skoða röð atvika sem áttu sér stað á síðustu sekúndum leiksins þegar Slóvenar skoruðu 25.mark sitt og því sem gerðist í framhaldinu þegar Slóvenar vörðust við miðlínu frumkasti þýska liðsins örfáaum sekúndum fyrir leikslok. Dómararnir, sem er frá Litháen, skoðu sjónvarpsupptöku af atvikunum í nokkrar mínútur áður en þeir dæmdu Þjóðverjum vítakast vegna ólöglegrar stöðu leikmanna Slóvena þegar Þjóðverjar tóku frumkast sitt við miðju leikvallarins.

Þjóðverjar jöfnuðu metin, 25:25, úr vítakastinu á síðustu sekúndu.

Við það sauð upp úr og hinn litríki þjálfari Slóvena, Veselin Vujovic, stóð um skeið í marki Slóvena áður en Þjóðverjar tóku vítakast sitt. Mun hann hafa sagt við dómararnna að úr því að þeir hafi breytt leiknum í sirkus þá væri ekkert til fyrirstöðu að hann tæki þátt.

Slóvenar lögðu inn kæru vegna framkvæmdar leiksins í gærkvöldi. Kærunni var vísað frá í morgun. Frávísunin mun hafa hleypt enn verra blóði í Slóvena sem íhuga nú að pakka niður í töskur og taka ekki meira þátt í EM í Króatíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert