Getum unnið öll lið í heimi

Kristján Andrésson, þjálfari Svía.
Kristján Andrésson, þjálfari Svía. AFP

Kristján Andrésson og lærisveinar hans í sænska karlalandsliðinu í handknattleik voru að vonum í sjöunda himni eftir sigurinn frábæra gegn Króötum í lokaumferð A-riðilsins á Evrópumótinu í Króatíu í gærkvöld.

Sigur Svía gerði það af verkum að Íslendingar eru farnir heim af mótinu og í fyrsta sinn frá árinu 2002 fara Svíar í milliriðil á EM með 4 stig en það hefur ekki gerst frá því þeir urðu Evrópumeistarar á heimavelli 2002 undir stjórn Bengt Johansson.

„Ég er ótrúlega stoltur af strákunum hvernig þeir spiluðu allan leikinn. Þetta lið á mikla og góða framtíð og fyrst við gátum lagt Króata í Króatíu þá eigum við möguleika að vinna öll lið í heimi,“ sagði Kristján, sem tók við þjálfun sænska landsliðsins fyrir tveimur árum.

Kristján lék á árum áður 13 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 10 mörk en hann var í landsliðshópnum á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert