Við þurfum fleiri leiðtoga

Guðjón Valur Sigurðsson fyrirliði íslenska landsliðsins.
Guðjón Valur Sigurðsson fyrirliði íslenska landsliðsins. Ljósmynd/Uros Hocevar,EHF

„Fyrst og síðast var niðurstaðan vonbrigði. Það var raunhæf krafa fyrir mótið að komast upp úr riðlinum og í milliriðla,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, hin þrautreynda handknattleikskona úr Stjörnunni, landsliðskona og fyrrverandi atvinnumaður í handknattleik, þegar Morgunblaðið leitaði álits hennar á árangri íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á Evrópumeistaramótinu í handknattleik.

Íslenska liðið lauk keppni á mótinu í fyrrakvöld í framhaldi af tapi fyrir Serbum í lokaumferð riðlakeppninnar.

„Sérstaklega eru vonbrigðin mikil vegna þess hvernig leikurinn við Serba þróaðist. Það var hrikalega vont að sjá hvernig leikmenn köstuðu sigrinum frá sér með lélegum leikkafla í síðari hluta síðari hálfleiks,“ sagði Rakel Dögg og bendir á að það sé áhyggjumál að oftar en einu sinni hafi botninn dottið úr leik íslenska landsliðsins á mótinu.

„Þá hefur sóknarleikurinn dottið niður, varnarleikurinn sömuleiðis og markvarslan auk þess, enda haldast tvö síðarnefndu atriðin oft í hendur.“

Rakel Dögg segir að fyrsti leikurinn við Svía hafi gefið ákveðin fyrirheit um að íslenska liðið gæti smollið saman, auk þess sem fyrri hálfleikurinn á móti Króötum hafi verið fínn. „Það voru kaflar í báðum leikjum sem voru verri. Í þeim voru hættumerki.

Hins vegar þótti mér íslenska liðið ekki koma rétt stillt til leiks á móti Serbum. Serbar áttu strax nokkuð auðvelt með að ljúka sínum sóknum með marki en við áttum í meira basli við að skora. Serbar keyrðu einnig grimmt í bakið á okkur og skoruðu mikið eftir hröð upphlaup og seinni bylgju. Við því áttum við engin svör,“ sagði Rakel Dögg.

Sjá allt viðtalið við Rakel og fleiri sem tjá sig um íslenska karlalandsliðið í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert