Mikilvægur sigur hjá Svíum

Jim Gottfridsson sækir að vörn Hvít-Rússa í kvöld.
Jim Gottfridsson sækir að vörn Hvít-Rússa í kvöld. AFP

Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, unnu ákaflega mikilvægan sigur gegn Hvít-Rússum, 29:20, í milliriðli eitt á Evrópumótinu í handknattleik í Zagreb í kvöld.

Svíar höfðu tögl og hagldir nær allan tímann og í hálfleik var munurinn fimm mörk, 16:11. Svíar bættu svo í í seinni hálfleik og innbyrtu öruggan sigur.

Svíar komust með sigrinum upp að hlið Króata með 6 stig. Frakkar hafa 8 stig í efsta sætinu og Norðmenn eru í fjórða sætinu með 4 stig. Hvít-Rússar og Serbar reka lestina með ekkert stig.

Albin Lagegren og Hampus Wanne voru markahæstir í jöfnu liði Svía með 4 mörk hvor og Andreas Palicka var öflugur í markinu en hann var með 50% markvörslu. Hann varði 19 skot, þar af tvö vítaköst, og skoraði að auki eitt mark. Artsem Karalek og Uladzislau Kulesh voru atkvæðamestir í liði Hvít-Rússa með 4 mörk hvor

Í lokaumferðinni á miðvikudaginn mætast annars vegar Frakkland og Króatía og hins vegar Svíþjóð og Noregur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert