Einn HM farseðill í húfi í undanúrslitum

Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía, getur tryggt sér farseðil á HM …
Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía, getur tryggt sér farseðil á HM á næsta ári í tveimur síðustu leikjunum á EM. AFP

Eftir að ljóst varð hvaða fjögur lið komust í undanúrslit á Evrópumótinu í handknattleik í kvöld skýrðist einnig hvaða lið munu kljást um einn farseðil á heimsmeistaramótið sem fram fer í sameiginlegri umsjón Dana og Þjóðverja í janúar á næsta ári. 

Af liðunum fjórum sem komin eru í undanúrslit eru Frakkar þegar komnir með þátttökurétt á HM á næsta ári sem ríkjandi heimsmeistarar. Danir eru einnig öruggir um sæti á HM sem annar gestgjafi mótsins.

Spánverjar og Svíar munu því eigast við um HM farseðilinn sem eftir er vegna þess að aðeins eitt lið frá EM í Króatíu mun hreppa þátttökurétt á HM og þarf þar af leiðandi ekki að taka þátt í umspilsleikjum í júní. Skiptir þá engu máli hvort Spánverjar eða Svíar verða Evrópumeistarar eða ekki. Það er því að miklu að keppa fyrir Kristján Andrésson og lærisveina hans í sænska landsliðinu í leikjunum tveimur sem eru fram undan auk sjálfra sigurlauna mótsins. 

Dregið verður til þeirra leikja í Zagreb um helgina. Ísland verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður sem þýðir að íslenska liðið getur ekki mætt liðunum sem hafna í 12 efstu sætunum á EM að þessu sinni. 

mbl.is