Framhaldið á EM ræðst í dag

Danir eru komnir í undanúrslit en Þjóðverjar eru með allt …
Danir eru komnir í undanúrslit en Þjóðverjar eru með allt undir. AFP

Í dag og í kvöld fara fram sex síðustu leikir milliriðla Evrópumótsins í handknattleik sem haldið er í Króatíu og mun því ráðast hvaða lið spila til undanúrslita.

Allt er enn opið í fyrri milliriðlinum. Frakkar standa þar best að vígi með fullt hús stiga, en þeir mæta Króötum sem eru með sex stig líkt og Svíar. Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, mæta Noregi og komast áfram með sigri og ef Króatar ná ekki að vinna Frakka. Svíar gætu enn þá komist áfram með tapi, en þurfa þá að treysta á að önnur úrslit séu þeim hagstæð.

Staðan í riðlinum og lokaleikirnir:

Frakkland 8 stig, Króatía 6, Svíþjóð 6, Noregur 4, Hvíta-Rússland 0, Serbía 0

15.00 Serbía – Hvíta-Rússland
17.15 Svíþjóð – Noregur
19.30 Króatía - Frakkland

Danmörk er eina þjóðin sem hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum úr síðari milliriðlinum. Spánn, Þýskaland, Tékkland og Slóvenía eiga öll möguleika á því að fylgja Dönum áfram.

Slóvenar og Tékkar mætast innbyrðis og þarf sigurþjóðin þar að treysta á því að Spánn og Þýskaland geri jafntefli í sínum leik. Í þeirri viðureign dugar annarri þjóðinni, Spáni eða Þýskalandi, sigur til að fara áfram óháð öðrum úrslitum.

Staðan í riðlinum og lokaleikirnir:

Danmörk 6 stig, Spánn 4, Þýskaland 4, Tékkland 4, Slóvenía 3, Makedónía 3

15.00 Slóvenía – Tékkland
17.15 Makedónía – Danmörk
19.30 Þýskaland – Spánn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert