Jafntefli gerði út um vonir Tékka og Slóvena

Roman Becvar reynir að brjótast í gegnum vörn Slóvena í ...
Roman Becvar reynir að brjótast í gegnum vörn Slóvena í dag. AFP

Tékkar og Slóvenar skildu jafnir, 26:26, í lokaleik beggja liða í milliriðli tvö á Evrópumóti karla í handknattleik í Króatíu í dag.

Tékkar voru einu marki yfir í hálfleik, 12:11, og náðu mest fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik en Slóvenar voru ekki af baki dottnir. Þeir náðu að snúa leiknum sér í vil og komust í 26:24, þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. Tékkum tókst að jafna metin í 26:26, og voru óheppnir að tryggja sér ekki sigur á lokasekúndunni en skot þeirra fór í slánna. Ondrej Zdrahala var markahæstur í liði Tékka með 9 mörk en hjá Slóvenum en Vid Kavticnik markahæstur með 6 mörk. 

Þessi úrslit þýða að hvorug þjóðin á möguleika að komast í undanúrslitin. Tékkar hafa 5 stig en Slóvenar 4 stig eins og Þjóðverjar og Spánverjar en Danir eru efstir með 6 stig og eru komnir í undanúrslitin og vinna riðilinn. Makedónía, sem er með 3 stig, mætir Dönum síðar í kvöld og Spánverjar leika gegn Þjóðverjum í úrslitaleik um að komast áfram í undanúrslitin.

Í milliriðli eitt fögnuðu Hvít-Rússar sínum fyrsta sigri en þeir lögðu Serba, 32:27, og þar með enduðu Serbar án stiga í milliriðlinum.

mbl.is