Sigur dugði Noregi ekki – Svíar eiga möguleika

Bjarte Myrhol er hér að skora eitt af sjö mörkum …
Bjarte Myrhol er hér að skora eitt af sjö mörkum sínum í kvöld. AFP

Norðmenn höfðu betur gegn Svíum, 28:25, í milliriðli eitt á Evrópumótinu í handknattleik í Króatíu í kvöld.

Þrátt fyrir þennan sigur er ljóst að Norðmenn komast ekki áfram í undanúrslitin en þeir hefðu þurft að vinna fimm marka sigur og treysta á sigur Frakka gegn Króötum í kvöld til að komast í undanúrslitin. Svíar halda enn í vonina um að komast í undanúrslitin. Fari svo að Frakkar vinni Króatana enda Svíar í öðru sæti riðilsins.

Norðmenn voru skrefinu á undan Svíum allan leikinn en þeir voru einu marki yfir í hálfleik, 12:11. Línumaðurinn Bjarte Myrhol var markahæstur í liði Norðmanna með 7 mörk en maður leiksins var markvörðurinn Torbjorn Bergrud sem varði 20 skot í leiknum og mörg dauðafæri Svíana. Jerry Tollbring var atkvæðamestur í liði Svía með 6 mörk.

Frakkland er efst í riðlinum með 8 stig og er öruggt í undanúrslitin og Króatía, Svíþjóð og Noregur hafa öll 6 stig. Frakkar og Króatar eigast við síðar í kvöld.

Þá unnu Danir stórsigur gegn gegn Makedóníumönnum, 31:20, í milliriðli 2 en fyrir leikinn höfðu Danir tryggt sér efsta sætið í riðlinum. Michael Damgaard skoraði 11 mörk fyrir Dani en hjá Makedóníumönnum var Filip Kuzmanovski markahæstur með 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert