Spánverjar draga fram leynivopn á EM

Spánverjar fagna sæti í undanúrslitum í gær.
Spánverjar fagna sæti í undanúrslitum í gær. AFP

Spænska landsliðið mun að öllum líkindum tefla fram óvæntu leynivopni gegn Frökkum þegar þjóðirnar eigast við í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Króatíu.

Gamli refurinn Arpad Sterbik, einn besti markvörður síðari ára, er á leið til móts við liðið í Zagreb. Óvíst er með frekari þátttöku Gonzalo Pérez, markvörð Barcelona, sem meiddist illa á hné að því talið er þegar Spánn vann Þýskaland í gær. Hann mun gangast undir myndatöku í dag og þá munu eðli meiðslanna koma í ljós.

Hvað sem því líður þá mun Sterbik vera til taks í Króatíu. Hann er nú 38 ára gamall og hefur leikið með Evrópumeisturum Vardar í Makedóníu frá árinu 2014. Áður var hann á Spáni í 10 ár, fyrst með Ciudad Real, sem nú heyrir sögunni til, og síðan Barcelona.

Ster­bik, sem er fædd­ur í gömlu Júgó­slav­íu, öðlaðist spænsk­an rík­is­borg­ara­rétt og var um leið kallaður inn í spænska landsliðið og lék sinn fyrsta leik með því árið 2008. Hann var valinn besti markvörður heims af Handball-planet í fyrra.

Arpad Sterbik.
Arpad Sterbik. Ljósmynd/Spænska handknattleikssambandið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert