Króatar náðu naumlega fimmta sætinu

Igor Karacic og félagar í liði Króatíu enduðu í fimmta …
Igor Karacic og félagar í liði Króatíu enduðu í fimmta sæti. AFP

Króatar höfnuðu í fimmta sæti Evrópumóts karla í handknattleik eftir sigur á Tékkum, 28:27, í leiknum um fimmta sætið sem var að ljúka í Zagreb.

Króatar voru lengst af með góða forystu, komust fljótlega sex mörkum yfir og staðan var 16:10 í hálfleik. Sami munur var enn þegar seinni hálfleikur var að verða hálfnaður en þá tóku Tékkar góðan kipp og minnkuðu muninn í eitt mark, 27:26, þegar rúmar  tvær mínútur voru eftir.

Þá upphófst mikill darraðardans. Tékkar minnkuðu aftur muninn í eitt mark, 28:27, þegar 53 sekúndur voru eftir og þeir fengu síðan færi til að jafna metin nokkrum sekúndum fyrir leikslok en nýttu það ekki.

Zlatko Horvat skoraði 10 mörk fyrir Króata, Igor Karacic 5, Luka Stepancic 4 og Manuel Strlek 4. Markaskorarinn öflugi Ondrej Zdrahala gerði hvorki meira né minna en 13 mörk fyrir Tékka og Stanislav Kasparek gerði 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert