Ráðist að heimili landsliðsmanns á EM

Mirko Alilovic í leik með Króötum á EM.
Mirko Alilovic í leik með Króötum á EM. Ljósmynd/EHF

Króatíski markvörðurinn Mirko Alilovic lenti í miður skemmtilegri lífsreynslu eftir að Króatíu mistókst að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer þar í landi.

Króatía tapaði fyrir Frakklandi í lokaumferð milliriðla og hafnaði í þriðja sæti síns riðils, sem þýðir að gestgjafarnir spila um fimmta sætið á mótinu. Miklar kröfur voru á Króötum um verðlaun og er niðurstaðan óásættanleg, þá sérstaklega fyrir helstu stuðningsmannabullur liðsins.

Nokkrir þeirra létu reiði sína bitna á heimili Alilovic, réðust að húsinu og brutu rúður og skemmdu allt lauslegt sem þeir komust í við húsið.

Hinn 32 ára gamli Alilovic var inn og út úr liði Króata á EM. Honum var skipt út eftir leikinn gegn Íslandi í riðlakeppninni, en fenginn aftur inn í milliriðla. Hann var þegar búinn að ákveða að segja skilið við landsliðið eftir EM.

mbl.is