Spánverjar lögðu heimsmeistarana

Daniel Sarmiento sækir að vörn Frakka í kvöld.
Daniel Sarmiento sækir að vörn Frakka í kvöld. AFP

Annað Evrópumótið í röð leika Spánverjar til úrslita en þeir lögðu heimsmeistara Frakka, 27:23, í fyrri undanúrslitaleiknum í Zagreb í kvöld.

Spánverjar lögðu grunninn að sigri sínum í fyrri hálfleik en eftir hann var staðan 15:9. Frakkar áttu í hinu besta basli með vörn og markvörð Spánverja og þeir skoruðu ekki mark í 10 mínútur seint í hálfleiknum og á meðan skoruðu Spánverjarnir fimm mörk í röð.

Spánverjar voru ekkert á þeim buxunum að slaka á í seinni hálfleik. Þeir héldu Frökkunum í heljargreipum og náðu mest níu marka forskoti um miðjan seinni hálfleik, 23:14. Frakkar neituðu að gefast upp og tókst að minnka muninn niður í þrjú mörk með því að skora sex mörk í röð og staðan var 23:20 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. En Spánverjar hleyptu Frökkum ekki nær sér og fögnuðu sigri og þar með töpuðu Frakkar sínum fyrsta leik á mótinu.

Arpad Ster­bik, hinn 38 ára gamli markvörður, lagði sitt lóð á vogaskálina en hann var kallaður inn í hópinn fyrir leikinn vegna meiðsla Gonzalo Pér­ez Vargas. Sterbik kom inná og varði þrjú vítaköst í leiknum. Sola Ferran var markahæstur í liði Spánverja með 7 mörk og Raul Enterrios skoraði 6. Cedric Sorhaindo var atkvæðamestur í liði Frakka með 6 mörk.

Spánn tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitum á EM í Póllandi fyrir tveimur árum en þetta verður í fimmta skipti sem Spánverjar leika til úrslita. Þeim hefur aldrei tekist að hampa Evrópumeistaratitlinum.

Spánn mætir annaðhvort Danmörku eða Svíþjóð í úrslitaleiknum á sunnudaginn en leikur Dana og Svía í undanúrslitunum hefst klukkan 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert