Svakalegt áfall Svía fyrir stórleikinn á EM

Albin Lagergren er úr leik á EM.
Albin Lagergren er úr leik á EM. AFP

Sænska karlalandsliðið í handknattleik, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, hefur orðið fyrir gríðarlegu áfalli í aðdraganda undanúrslitaleiks liðsins gegn Danmörku í dag á Evrópumótinu í Króatíu.

Albin Lagergren, markahæsti leikmaður Svía á mótinu til þessa, er úr leik vegna meiðsla. Hann fékk heilahristing og mun ekki taka frekari þátt á EM, en í hans stað er Andreas Cederholm, leikmaður Minden í Þýskalandi, á leið til móts við liðið.

„Það er gríðarlegt áfall fyrir Albin að geta ekki tekið þátt í úrslitahelginni með okkur á vellinum, fyrir utan hversu mikið áfall þetta er fyrir okkur sem lið. Við tökum aldrei áhættu hvað heilahristing varðar og verðum að bregðast við þessu,“ sagði Kristján.

Lagergren fékk högg á höfuðið gegn Noregi í lokaleik milliriðla mótsins en fór ekki í frekari skoðun fyrr en eftir leik þar sem heilahristingurinn kom í ljós. Hann var búinn að skora 23 mörk í 36 skotum á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert