„Boltastrákurinn“ kom Dönum í framlengingu

Lasse Svan fagnar jöfnunarmarkinu sem dugði þó skammt.
Lasse Svan fagnar jöfnunarmarkinu sem dugði þó skammt. AFP

Danir náðu með ótrúlegum hætti að knýja fram framlengingu í undanúrslitunum gegn Svíum í gær á EM karla í handknattleik í Króatíu. Lasse Svan var hetja Dana er hann jafnaði á allra síðustu sekúndu leiksins en því hefði hann aldrei náð nema fyrir tilstuðlan „boltastráks“ á vellinum sem kom knettinum strax á ný í leik eftir að Svíar höfðu klúðrað sinni síðustu sókn í hefðbundnum leiktíma.

„Það var „boltastrákur“ sem lét hann fá boltann. Hann bjargaði Danmörku. Það eiga ekkert að vera boltastrákar í handbolta. Það voru sex sekúndur eftir – en þetta er einfaldlega bara vel gert hjá boltastráknum,“ sagði Claes Hellgren við Aftonbladet sænska eftir leikinn, á léttum nótum.

Mynd sem dönsku sjónvarpsmennirnir á TV2 náðu má sjá hér að neðan en snögg viðbrögð drengsins sáust ekki í myndskeiðinu sem sést hér neðst í fréttinni.

Lokatölur eftir venjulegan leiktíma urðu 28:28 en Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, voru sterkari í framlengingunni og dugðu því snögg viðbrögð boltastráksins skammt.

Umtöluð viðbrögð:

Strákurinn býr sig undir að kasta knettinum til Jannick Green.
Strákurinn býr sig undir að kasta knettinum til Jannick Green. Ljósmynd/TV2

Það sem sést ekki á upptökunni er að það var boltastrákur sem kom knettinum strax á Jannick Green, markvörð Dana, sem kom boltanum í leik. Jöfnunarmarkið ótrúlega má aftur á móti sjá hér að neðan. 

mbl.is