„Kristján var bestur á EM“

Kristján Andrésson á hliðarlínunni hjá Svíum í kvöld.
Kristján Andrésson á hliðarlínunni hjá Svíum í kvöld. AFP

Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar, fær mikið lof heima fyrir eftir að hann stýrði Svíum til silfurverðlauna á Evrópumótinu í Króatíu sem lauk í kvöld.

Svíþjóð mætti Spáni í úrslitum og voru Svíar tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12. Eftir hlé voru Spánverjar hins vegar mun betri á meðan Svíar skoruðu aðeins tvö mörk á 20 mínútna kafla. Svo fór að Spánn vann, 29:23.

Sænski miðillinn Aftonbladet fer yfir frammistöðu allra leikmanna Svíþjóðar á mótinu og þar fá markverðirnir Mieael Appelgren og Andreas Palicka fimm plúsa. Það eru einu leikmennirnir sem fá fullt hús, en Kristján þjálfari fær það líka.

„Það er ekki hægt að segja að hann hafi gert mikil mistök fyrst hann landaði silfri. Kristján var sannarlega MVP, sá besti, á Evrópumótinu,“ segir í umsögninni um Kristján.

mbl.is