Á ekki að vera vinargreiði

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana segir að vinagreiði eigi ekki að …
Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana segir að vinagreiði eigi ekki að ráða þegar dómurum er raðað niður á kappleiki á stórmótum. -

Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla, er langt frá því að vera sáttur við handknattleikssamband Evrópu, EHF, og dómarana sem dæmdu viðureign Dana og Frakka um þriðja sæti á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í Króatíu í gær.

Jacobsen var æfur í leikslok og sagði það hafa verið líkst vinargreiða af hálfu EHF að láta Rúmenana Constantin Din og Sorin-Laurentiu Dinus dæma leikinn en þeir eru nú að kveðja sviðið sem alþjóðlegir dómarar. Viðureign Dana og Frakka var sú síðasta sem þeir dæma vegna aldurs á stórmóti.

„Mér þykir það setja handboltann og þennan leik niður að þegar mönnum er gerður vinargreiði með kveðjuleik vegna þess að þeir eru að hætta að dæma. Það er óviðunandi. Þetta á ekki að vera vinargreiði,“ sagði Jacobsen og var heitt í hamsi.

Talsmaður EHF segir þá ákvörðun að láta Din og Dunus dæma umræddan leik hafi eingöngu verið tekin með hliðsjón af frammistöðu þeirra í fyrri leikjum keppninnar. Ekki hafi neitt annað búið að baki ákvörðunar dómaranefndar mótsins. Það eigi við niðurröðun á dómara á öllum leikjum mótsins.

Danir voru óánægðir með dómgæsluna í leiknum, ekki síst þegar dæmt var tvígrip á Rasmus Lauge í hraðaupphlaupi í stöðunni 28:26 fyrir Frakka. Lauge gat þá minnkað muninn í eitt mark, skömmu fyrir leikslok. Greinilegt er að um rangan dóm var að ræða sem virtist m.a. koma leikmönnun franska liðsins í opna skjöldu.

Din og Dinus hafa oft þótt umdeildir. M.a. sendi Handknattleikssamband Íslands inn athugasemd vegna dómgæslu þeirra á síðustu mínútu viðureignar Austurríkis og Íslands á EM 2010 eftir að þeir stöðvuðu leiktímann þvert á reglur. Athugasemd eða kæru vegna framkvæmdar leiksins var vísað frá.

mbl.is