„Framtíðin er björt“

Kristján Andrésson landsliðsþjálfari Svía.
Kristján Andrésson landsliðsþjálfari Svía. AFP

Kristján Andrésson landsliðsþjálfari Svía í handknattleik segir bjart framundan hjá landsliðinu en Svíar undir stjórn Kristjáns unnu til silfurverðlauna á Evrópumótinu sem lauk í Króatíu í gærkvöld.

Svíar unnu þar sín fyrstu verðlaun á Evrópumóti í 16 ár en þeir urðu Evrópumeistarar á heimavelli 2002.

Eftir góðan fyrri hálfleik á móti Spánverjum í úrslitaleiknum í Zagreb í gær hrökk allt í baklás hjá lærisveinum Kristjáns og Spánverjar unnu öruggan sex marka sigur, 29:23.

„Spánverjarnir spiluðu frábæran varnarleik í seinni hálfleik þar sem þeir brutu niður sóknarleik okkar á löngum köflum,“ segir Kristján í vitaðli við sænska blaðið Göteborg Posten en þetta var annað stórmótið sem hann stýrir Svíum á. Á HM í Frakklandi á síðasta ári höfnuðu Svíar í sjötta sæti.

„Við erum með marga leikmenn sem eru að koma upp og hafa fengið aukið vægi með liðinu. Aðrir hafa fengið reynslu sem ég held að verði mjög gagnlegt fyrir okkur í framtíðinni.

Ef þessir leikmenn sleppa við meiðsli og ná að þróast og þroskast vel með liðum sínum er framtíð sænska landsliðsins björt,“ segir Kristján.

Svíar voru eitt af yngstu landsliðunum á Evrópumótinu og þeir stefna á að gera enn betur á Evrópumótinu eftir tvö ár sem haldið verður í Svíþjóð, Noregi og Austurríki. Undanúrslitin og úrslitaleikirnir verða spilaðir í Stokkhólmi.

Kristján er fjórði íslenski þjálfarinn sem vinnur til verðlauna á stórmóti en hinir þrír eru Guðmundur Þórður Guðmundsson, Dagur Sigurðsson og Þórir Hergeirsson.

mbl.is