Fullkominn leikur hjá Lindberg

Hans Óttar Lindberg.
Hans Óttar Lindberg. AFP

Hans Óttar Lindberg, hægri hornamaður danska karlalandsliðsins í handknattleik, sem á ættir að rekja til Íslands, fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í leiknum um bronsverðlaunin á Evrópumótinu sem lauk í Króatíu í gærkvöld.

Hans Óttar skoraði 12 mörk úr 14 skottilraunum í leiknum og hann fékk hæstu einkunn hjá TV2 og hjá danska ríkissjónvarpinu, DR. Handboltasérfræðingurinn Bengt Nyegard sem sér um einkunnargjöfina hjá TV2 gaf Hans hæstu einkunn sem er 6 og hann fékk einnig hæstu einkunn hjá DR eða 12 sem þýðir fullkominn leikur.

Að mati Nyegard var Hans Óttar var besti leikmaður Dana á Evrópumótinu en meðaleinkunn hans var 4,5.

Hans Óttar Lindberg er 36 ára gamall og leikur með þýska liðinu Füchse Berlin. Hann er fæddur í Danmörku en foreldrar hans eru báðir íslenskir og léku á sínum yngri árum með FH.

mbl.is