Tveir spænskir og tveir Svíar valdir

Jim Gottfridsson var valinn besti leikmaðurinn á EM.
Jim Gottfridsson var valinn besti leikmaðurinn á EM. AFP

Tveir leikmenn Evrópumeistara Spánar og tveir úr silfurliði Svía eru í úrvalsliði Evrópumeistaramótsins í handknattleik. Valið á úrvalsliðinu var tilkynnt í gær áður en úrslitaleikirnir tveir fóru fram.

Svínn Jim Gottfridsson var valinn mikilvægasti eða besti leikmaður mótsins. Hann þótti vera heilinn á bak við sóknarleik Svía sem skilaði þeim alla leið í úrslitin. Jepser Nielsen, línumaður sænska landsliðsins var einnig valinn í úrvalsliðið.

Spánverjarnir Alex Dujshebaev og Ferran Sole voru valdir í úrvalsliðið. Sole sló í gegn með spænska landsliðinu en þetta var hans fyrsta Evrópumót. Valið á Sole í spænska landsliðið fyrir mótið var alls ekki óumdeilt.

Aðrir í úrvalsliðinu eru Vincent Gerrard, markvörður franska landsliðsins, Manuel Strlek, vinstri hornamaður Króata, Mikkel Hansen, stórskytta danska landsliðsins, sem einnig varð næst markahæsti leikmaður mótsins, Sandor Sagosen, leikstjórnandi norska landsliðsins, og Jakov Gojun, varnarmaður króatíska landsliðsins.

iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert