Einstaklega faglegir

Aron Pálmarsson kátur á æfingu með íslenska landsliðinu.
Aron Pálmarsson kátur á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari og Aron Pálmarsson fyrirliði eru sammála um að menn í íslenska hópnum fyrir EM í handknattleik séu fullir eldmóðs. EM hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu á fimmtudaginn. Íslenski hópurinn heldur í dag til Búdapest en þar mun íslenska liðið hefja leik á föstudaginn gegn Portúgal í B-riðli keppninnar.

„Leikmennirnir eru mjög einbeittir og hafa gert þetta einstaklega faglega. Auðvitað hefur reynt á menn að vera í hálfgerðri einangrun en ég verð að hrósa leikmönnum fyrir hversu faglega þeir hafa nálgast þetta.

Ég finn fyrir því að það er eldmóður í hópnum og ofboðslega góður andi. Ég held að leikmenn hafi líka kynnst betur í þessum aðstæðum. Menn eru fullir tilhlökkunar. Eins og leikmenn hlakka ég til að glíma við þetta,“ sagði Guðmundur meðal annars á fundinum í gær en þar vísar hann til þess að landsliðshópurinn hefur verið saman á hóteli í janúar og viðamiklar varúðarráðstafnir gerðar vegna kórónuveirunnar.

„Vonandi reynist rétt ákvörðun að hafa farið með liðið í vinnustaðasóttkví inn á hótel. Við höfum alla vega ekki lent í því að fá smit eins og sum lið hafa lent í. Við höfum æft mjög vel og stundum tvisvar á dag,“ sagði Guðmundur einnig.

Hugarleikfimi

Aron Pálmarsson tók í svipaðan streng og Guðmundur. Hann sagðist einnig finna fyrir því í hópnum að sjálfstraustið hefði aukist.

„Ég held að við getum staðið okkur vel á mótinu. Sjálfstraustið hefur verið að aukast í hópnum. Mér finnst ég finna fyrir því að menn vilji sanna sig fyrir alvöru með landsliðinu en landsliðsmennirnir hafa sannað sig með félagsliðum sínum í Evrópu,“ sagði Aron og spurður út í hvernig það væri fyrir íþróttamenn að þurfa að hugsa látlaust um sóttvarnir í undirbúningi fyrir stórmót sagði Aron það vissulega geta verið þreytandi en menn þyrftu bara að bíta á jaxlinn og takast á við það.

Viðtalið við Aron má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert