Tilbúinn í stærra hlutverk

Sigvaldi Björn Guðjónsson verður áberandi á EM ef fram heldur …
Sigvaldi Björn Guðjónsson verður áberandi á EM ef fram heldur sem horfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigvaldi Björn Guðjónsson er eini eiginlegi hægri hornamaðurinn í EM-hópi Íslands og því mun væntanlega mæða mikið á honum á EM í Ungverjalandi en fyrsti leikur Íslands er annað kvöld gegn Portúgal. 

Ekki er annað að sjá en að Sigvaldi sé tekinn við stöðunni í landsliðinu. Arnór Þór Gunnarsson gefur ekki kost á sér en hann hefur leikið á mörgum stórmótum og var í hægra horninu ásamt Sigvalda á HM í Egyptalandi fyrir ári.

„Ég þakka Gumma [Guðmundi landsliðsþjálfara] fyrir þetta traust. Ég er rosalega spenntur að fá þetta hlutverk og líður vel yfir því. Ég held að ég sé bara tilbúinn í þetta og er vel á mig kominn um þessar mundir,“ sagði Sigvaldi þegar mbl.is ræddi við hann í keppnishöllinni í Búdapest í dag. 

„Mér finnst sjálfum að ég sé orðinn það gamall að ég hafi fengið góða reynslu í gegnum árin. Ég hef mætt öllum bestu félagsliðunum í Meistaradeildinni og bestu markvörðunum. Ég hef farið á nokkur stórmót og er 100% tilbúinn til að taka að mér stærra hlutverk.“

Sigvaldi segir að íslenska liðið sé afar spennandi um þessar mundir. „Þetta er svakalega spennandi vegna þess að við erum með rosalega gott lið. Ef maður skoðar æfingarnar þá hefur sóknarleikurinn verið mjög góður. Mikill hraði og allir eru ferskir og heilir sem er mikilvægt. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu móti og er spenntur að byrja. Það er bara eitt í stöðunni í fyrsta leiknum gegn Portúgal og það er að vinna,“ sagði Sigvaldi. 

mbl.is