Aldursforsetinn fær að vera með í tölvuleikjum

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er sá eini í leikmannahópi Íslands á EM í Búdapest sem var í liðinu sem vann til verðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. 

Í liðinu á EM eru einnig Aron Pálmarsson og Ólafur Guðmundsson sem eins og Björgvin voru í liðinu sem vann til bronsverðlauna á EM árið 2010. Björgvin hefur verið með á langflestum stórmótum síðan á Ólympíuleikunum 2008 og mbl.is spurði Björgvin hvort hann hafi alltaf jafn mikla ánægju af þessu?

„Já en ánægjan breytist svolítið og maður gerir þetta á öðrum forsendum. Fyrst þegar maður var ungur leikmaður þá gerði maður þetta meira fyrir sjálfan sig. Núna er maður meðvitaðri um að vera hluti af einhverju stærra og gera meira fyrir aðra. Auk þess verður þjóðarstoltið meira í manni með árunum og þegar maður horfir til baka þá verður þátttakan í landsleikjum mikilvægari og mikilvægari.“

Liðleikinn er til staðar hjá aldursforsetanum enda er erfitt að …
Liðleikinn er til staðar hjá aldursforsetanum enda er erfitt að verja markið án þess. AFP

Björgvin Páll er að heiman frá konu og fjórum börnum en það yngsta kom í heiminn fyrir um ári síðan. Björgvin þarf að einbeita sér að EM á sama tíma og hann er með hugann heima.

„Maður er alltaf með eitthvert samviskubit yfir því að vera ekki heima en þegar maður hringir heim og heyrir að konan er með algera stjórn á öllu þá auðveldar það manni lífið. Hún er stoð og stytta sem heldur öllum glöðum.

En við erum með ung börn og kórónuveiran er úti um allt heima á Íslandi. Hver dagur snýst um að fá neikvæða niðurstöðu úr PCR prófum hér í Búdapest og að fjölskyldan fái neikvæða niðurstöðu úr PCR prófum heima.

En maður þekkir þessa stöðu ágætlega vegna þess að svona var þetta einnig á HM í fyrra. Munurinn er sá að þá var yngsta barnið nokkurra daga gamalt en er nú eins árs. Það er kannski þægilegra og líklega verður þetta þægilegra eftir því sem ég fer á fleiri stórmót. Ef ég fer á tíu stórmót til viðbótar þá verða elstu börnin kannski flutt út,“ sagði Björgvin léttur en hann er aldursforseti í íslenska landsliðinu á EM en hann er fæddur á Hvammstanga í maí árið 1985. Hvernig finnst Björgvini að vera gamli maðurinn í landsliðinu?

Björgvin Páll Gústavsson á Ólympíuleikunum árið 2008. Þá sló hann …
Björgvin Páll Gústavsson á Ólympíuleikunum árið 2008. Þá sló hann í gegn á vissan hátt. mbl.is/Brynjar Gauti

 „Það er svolítið skrítið því mér líður ekki þannig. Ég er ekki viss um að yngri strákunum finnist það heldur því Elvar [Örn Jónsson] sagði í viðtali í gær að við landsliðsmennirnir værum allir á svipuðum aldri. Það gladdi mig gríðarlega mikið. Ég fæ að spila FIFA með þeim og hlusta á svipaða tónlist og þeir. Mér líður því ekki eins og ég sé elstur.

En Róbert Geir framkvæmdastjóri og starfsliðið minna mig á að ég sé orðinn gamall. Mitt hlutverk er ef til vill að brúa bil á milli kynslóða,“ sagði Björgvin og hann segir að yngri leikmenn landsliðsins séu miklir fagmenn í íþróttinni.

„Já þeir eru á vissan hátt miklu einbeittari en við vorum sem vorum áður í landsliðinu. Þeir hlaupa inn í sal og eru byrjaðir að teygja og rúlla áður en æfingarnar byrja. Það er mikill metnaður í þeim og það skilar þeim á þann stað sem þeir eru í dag. Þeir eru í góðum liðum í atvinnumennskunni.

En við erum Íslendingar og gætum þessa að vera ekki of alvarlegir. Á svona mótum mega menn passa sig á að vera ekki of alvarlegir og of kassalaga. Við viljum halda í okkar sérkenni og erum með minni reglur en mörg önnur landslið. Ég held að þetta sé rétta jafnvægið.“

Björgvin og Aron Pálmarsson á Ólympíuleikunum í London 2012. Aðrir …
Björgvin og Aron Pálmarsson á Ólympíuleikunum í London 2012. Aðrir á myndinni eru Sverre Jakobsson, Ólafur Stefánsson Guðjón Valur Sigurðsson og Kári Kristján Kristjánsson. mbl.is/Golli

Blaðamaður biður Björgvin um að bera landsliðið nú saman við aðra landsliðshópa sem hann hefur verið í. Björgvin segir það vera erfitt.

„Samanburðurinn er svolítið erfiður því handboltinn er spilaður allt öðruvísi en þegar ég kom fyrst inn í landsliðið árið 2003. Mikið hefur breyst síðan þá. Í landsliðinu núna eru mjög hæfileikaríkir leikmenn og þeir eru með stærri hlutverk í sínum félagsliðum en áður. Við erum með mikla breidd í sókninni sem ekki hefur alltaf verið raunin hjá okkur. Galdurinn er að stilla það rétt saman.

Ég hélt að það yrði erfiðara þegar við fengum ekki vináttuleiki en nú er ég þeirrar skoðunar að það hafi hjálpað okkur. Við höfum skoðað æfingarnar hjá okkur mjög vel og lærum af þeim. Þessum hópi fylgir léttleiki og þegar það er til staðar í þessum aðstæðum sem við vorum í þá er það vísbending um að mönnum líði vel. Þannig hefur það verið í þeim landsliðum sem ég hef verið í og hafa náð árangri,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson í samtali við mbl.is í Búdapest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert