Aron iðaði í skinninu

Aron Pálmarsson er hér um það bil að senda boltann …
Aron Pálmarsson er hér um það bil að senda boltann upp í hægra hornið eftir að hafa snúið af sér varnarmann. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson sagði góða tilfinningu fylgja því að ná í tvö stig í fyrsta leik á EM í handknattleik eftir að hafa beðið lengi eftir að spila. 

„Jú einmitt. Maður iðaði í skinninu að fá að byrja eftir að hafa horft á fyrstu leikina í keppninni í gær. Ég er einnig ánægður með hvernig við unnum leikinn. Þetta var liðsheild og við fengum framlag frá mörgum leikmönnum. Ég held að við höfum gert nokkurn veginn það sem við áttum að gera,“ sagði Aron þegar mbl.is náði tali af honum í MVM Dome í Búdapest. 

Aron í gegnumbroti í leiknum í kvöld.
Aron í gegnumbroti í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

 Íslensku landsliðsmennirnir þurftu að inna af hendi þolinmæðisvinnu í vörninni vegna þess að Portúgalar gáfu sér góðan tíma í sóknunum. Þeir spiluðu langar sóknir og freistuðu þess að koma boltanum inn á línuna. 

„Við skoruðum tæp 30 mörk í leiknum. Við vorum 14:10 yfir eftir fyrri hálfleik. Þá sagði ég að 14 mörk gegn þessu liði í einum hálfleik er mikið því þeir negla hraðann niður. Fyrir vikið vildum við reyna að spila hraðar í síðari hálfleik en mér fannst það ekki alveg ganga hjá okkur. Við fórum einnig að skipta tveimur mönnum á milli varnar og sóknar og kannski hafði það áhrif. Við eigum það bara inni að spila hraðari leik og fyrir vikið fór minni orka í hlaup í dag. En þetta var vel spilað á heildina litið.“

Engin flugeldasýning

Aron segir að þótt nokkuð margir íslensku leikmannanna séu á aldrinum 22-25 ára þá segi það ekki allt því þeir hafi öðlast reynslu með landsliðinu og sterkum félagsliðum. 

„Við höfum verið með nánast svipað lið í þrjú til fjögur ár. Þessir yngri leikmenn í þessu liði eru engir kjúklingar lengur. Þetta eru menn í toppliðum í Evrópu. Þeir hafa spilað þar í ágætan tíma og eru að ná árangri. Þótt þeir séu ungir þá þurfum við einnig að horfa á reynsluna hjá þessum gæjum og hvað þeir geta. Þeir eru hrikalega góðir en við megum heldur ekki fara fram úr okkur. Þetta var engin flugeldasýning hjá okkur en mér fannst við gera flest allt rétt, fyrir utan að hraðaupphlaupin vantaði. Við vorum ekki í veseni í vörninni, hvorki sex á móti sex né sjö á móti sex. Í sókninni fannst mér við vera agaðir og flottir og komum okkur í góð færi,“ sagði Aron Pálmarsson sem skoraði 4 mörk og var traustur í vörn og sókn.  

mbl.is