„Gríðarlega vel útfært í sókninni“

Guðmundur gefur Viktor Gísla Hallgrímssyni fimmu þegar sigurinn var í …
Guðmundur gefur Viktor Gísla Hallgrímssyni fimmu þegar sigurinn var í höfn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, var hinn ánægðasti með spilamennskuna gegn Portúgal á EM í Búdapest í kvöld. 

Enda náði Ísland í tvö stiga í fyrsta leik sínum í keppninni á sannfærandi hátt. Ísland sigraði Portúgal 28:24 og var yfir 14:10 að loknum fyrri hálfleik. 

„Ég er glaður með sigurinn. Þetta var erfiður leikur gegn erfiðum andstæðingi. Portúgalarnir eru klókir og vel spilandi. Þeir eru með átta leikmenn í sama liðinu, Porto, sem er stórlið í Evrópu. Við vorum búnir að undirbúa vörnina mjög vel. Fyrstu mínúturnar voru smá hnökrar á vörninni sem var ekkert skrítið því við vorum að komast í gang og þetta var fyrsti landsleikurinn síðan í maí. En við þurfum að komast fyrr í gang í næsta leik. En vörnin komst í gang svo um munaði. Það var við svakalega erfiða línumenn að glíma, þunga og sterka. En mér fannst við leysa það vel. Björgvin var með góða markvörslu í fyrri hálfleik og Viktor varði einnig erfið skot í síðari hálfleik. Þegar þeir léku sjö á móti sex þá leystum við það að mínu mati frábærlega. Þeir eru líklega bestir í heimi í þessu og þeirra leikmenn hafa gert þetta árum saman og kunna upp á 10. Ég var mjög sáttur við það,“ sagði Guðmundur um vörnina þegar mbl.is ræddi við hann og um sóknina hafði hann þetta að segja:

Guðmundur fylgist með á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur fylgist með á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Við vildum keyra á þá og það tókst tiltölulega vel. Við settum alla vega þrýsting á þá og kannski náðum við að þreyta þá svolítið. Í sókninni var leikurinn gríðarlega vel útfærður. Við vorum með ákveðna leikáætlun sem við fylgdum. Það var aðeins undir lok leiksins sem kom los á sóknina. Þá voru menn í rauninni búnir að landa sigrinum og slaka ósjálfrátt á,“ sagði Guðmundur og snaraði sér að svo búnu á blaðamannafund í fylgd starfsmanns Handknattleikssambands Evrópu. 

Íslenska liðið stillir sér upp undir þjóðsöngnum.
Íslenska liðið stillir sér upp undir þjóðsöngnum. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is