Hafði áður óskað eftir því að spila í tíunni

Gísli Þorgeir sendir út í hægra hornið á Sigvalda í …
Gísli Þorgeir sendir út í hægra hornið á Sigvalda í leiknum á móti Portúgal. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Gísli Þorgeir Kristjánsson segist hafa áður reynt að spila í treyju númer 10 fyrir íslenska landsliðið í handknattleik. 

Gísli hefur hingað til verið númer 18 í A-landsliðinu en þegar EM hófst í Búdapest í gær lék hann í treyju númer 10 eins og faðir hans, Kristján Arason, gerði á fjórum stórmótum frá 1984 - 1990. Kristján er raunar á meðal markahæstu leikmanna landsliðsins frá upphafi og var sá fyrsti sem náði að skora 1000 mörk. 

Gísli glottir þegar blaðamaður færir númerið á treyjunni í tal. „Nei þetta er engin tilviljun. Ég hef barist fyrir þessu númeri síðustu tvö þrjú árin í landsiðinu og fékk loksins samþykki fyrir því núna að klæðast þessari treyju. Það var ansi sætt að geta fagnað því með þessum sigri gegn Portúgal og geggjað að sjá svo mömmu og pabba dansandi í stúkunni eftir leikinn. Það var einnig magnað að sjá alla íslensku stuðningsmennina.“

Kristján Arason í tíunni í smekkfullri Laugardalshöll á seinni hluta …
Kristján Arason í tíunni í smekkfullri Laugardalshöll á seinni hluta níunda áratugarins. Morgunblaðið/Einar Falur

Gísli segir að menn þurfi að vera fljótir að ná áttum eftir sæta sigra á stórmótunum. „Eins og maður er fljótur að fara hátt upp eftir sigurleiki þá þarf maður að vera fljótur niður á jörðina aftur. Við þurfum að átta okkur á því hversu mikilvægur næsti leikur er. Við vorum farnir að hugsa um leikinn gegn Portúgal fjórum eða fimm dögum fyrir leik en nú er bara einn dagur á milli leikja. Þetta er svolítil kúnst en sigur á morgun hefði mikla þýðingu fyrir okkur. Holland náði frábærum sigri á móti Ungverjum en við ætlum að vinna Hollendingana,“ sagði Gísli og þjálfarateymið fór fljótt að fóðra leikmennina á fróðleik um hollenska liðið. 

„Við kíktum aðeins á spilamennsku Hollendinga í morgun og hvað við ætlum að gera í vörn á móti þeim. Við erum búnir að fá videóklippurnar frá þjálfurunum og einbeitingin er nú á leiknum gegn Hollandi. Þetta verður erfitt verkefni en við ætlum að klára dæmið.“

Gísli er illviðráðanlegur í stöðunni maður á móti manni þar …
Gísli er illviðráðanlegur í stöðunni maður á móti manni þar sem hann býr yfir mikilli snerpu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Örvhenta skyttan Kay Smits skoraði 11 mörk fyrir Holland þegar liðið vann Ungverjaland fyrir framan 20 þúsund Ungverja í fyrsta leiknum. Smits er samherji Gísla og Ómars Inga Magnússonar hjá Magdeburg. Hjá þýska liðinu þarf Smits reyndar að gera sér að góðu að vera varamaður fyrir Ómar. 

„Þeir eru með flotta leikmenn og flott byrjunarlið. Erlingur er búinn að gera vel og stilla þá vel saman. Kay er flottur leikmaður en sem liðsfélagi veit ég einnig hverjir veikleikarnir eru. Það gæti kannski nýst okkur í leiknum á morgun,“ sagði Gísli ennfremur þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert