Kjaftar við andstæðingana

Ýmir Örn Gíslason var hinn hressasti í gær og fagnar …
Ýmir Örn Gíslason var hinn hressasti í gær og fagnar hér marki gegn Portúgal. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ýmir Örn Gíslason fékk ærið verkefni í miðju íslensku varnarinnar í gærkvöldi þegar hann fékk nautsterka línumenn Portúgals í fangið. 

Vörn Íslands stóð fyrir sínu og Ísland sigraði 28:24. Ýmir gat því verið ánægður með dagsverkið eins og liðsfélagarnir. 

„Þegar maður horfir til baka þá held ég að vörnin hafi ráðið úrslitum. Við spiluðum frábærlega í vörninni þegar við vorum sex á móti sex. Þegar þeir spiluðu sjö á móti sex þá náðu þeir engu út úr því enda vorum við búnir að stúdera það vel. Við náðum að keyra í bakið á þeim en hefði viljað gera aðeins betur þar. Þetta var vinnusigur og það voru gæði í okkar leik, bæði í sókn og vörn. Liðsheildin skilaði þessu.“

Spurður um hvort ekki sé erfitt að eiga við stælta og þunga línumenn portúgalska liðsins sagði Ýmir það mega til sanns vegar færa en benti á að portúgölsku línumennirnir væru kannski ekkert ánægðir með niðurstöðuna. 

„Já það er alveg rétt. En þeim finnst heldur ekkert skemmtilegt að berjast við mig. Það gleymist stundum í umræðunni. Ég segi svona. Ég veit ekki hversu stór og þungur þeirra aðallínumaður er. Hann á nokkur kíló á mig en það segir ekki allt. Það þarf stundum að spila þetta klókt og mér fannst við allir gera það í dag. Við vorum með ákveðnar áherslubreytingar sem mér fannst koma vel út. Við vorum þéttari og hjálparvörnin var betri. Ég var ánægður með þetta.“

Elvar Örn Jónsson og Ýmir Örn Gíslason stóðu vaktina í …
Elvar Örn Jónsson og Ýmir Örn Gíslason stóðu vaktina í miðri vörninni á löngum köflum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Í hita leiksins sér maður að Ýmir er stundum kjaftandi við andstæðingana. Hann á það til að senda þeim tóninn, til dæmis ef honum finnst þeir ýkja einhver brot. Er þetta vegna þess að myndast hefur rígur á milli landsliða Íslands og Portúgals eða er þetta bara eitthvað sem Ýmir hefur tileinkað sér á vellinum svona yfirleitt?

„Jaaaaaaaa þetta er góð spurning. Ég hef ekki gert mikið af þessu með Rhein-Neckar Löwen því ég er ekki alveg nógu góður í þýskunni. Í gamla daga spilaði ég vörn með Orra [Frey Gíslasyni eldri bróður Ýmis] og þá var alltaf einhver kýtingur gagnvart næsta manni. Það má segja að þetta hafi byrjað þegar ég var yngri og byrjaði að spila í miðri vörninni. Stundum fór maður yfir strikið og maður þarf að læra á þetta. Þetta er ekki móðgandi sem maður er að segja þótt maður reyni að æsa andstæðinginn upp. Ég bendi þeim á að línan hafi verið laus þarna eða býð þeim að koma aftur og sækja á mig. Ég held að við höfum komist aðeins inn í hausinn á Portúgölunum í dag. Ég var miklu meira í þessu þegar ég var yngri og þetta hefur minnkað,“ sagði Ýmir hlæjandi og bætti við.

„Stundum gerist þetta einnig innan liðsins. Ég tók Elvar aðeins í gegn í leiknum og hann missti ekki mann fram hjá sér eftir það,“ sagði Ýmir Örn Gíslason í samtali við mbl.is í Búdapest í gærkvöldi. 

mbl.is