Alfreð kominn í milliriðil

Alfreð Gíslason er kominn með Þýskaland í milliriðla.
Alfreð Gíslason er kominn með Þýskaland í milliriðla. AFP

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu eru komnir áfram í milliriðil á EM karla í handbolta. Þetta varð ljóst þegar Pólland van 29:20-sigur á Hvíta-Rússlandi í D-riðli í kvöld. Pólland er einnig komið áfram en Austurríki og Hvíta-Rússland sitja eftir.

Staðan í hálfleik var 14:11, Póllandi í vil. Hélst munurinn í 3-5 mörkum framan af í seinni hálfleik en Pólverjar stungu af í lokin þegar þeir skoruðu átta af síðustu tíu mörkunum.

Przemyslaw Krajewski skoraði sjö mörk fyrir Pólland og Michal Daszek sex. Mikita Vailupau skoraði fimm fyrir Hvíta-Rússland.

Pólland og Þýskaland mætast í úrslitaleik um toppsæti riðilsins á þriðjudaginn kemur en þau eru bæði með fjögur stig eftir tvo leiki á meðan Austurríki og Hvíta-Rússland eru án stiga.

mbl.is