Frábært að spila úrslitaleik við heimamenn

Aron Pálmarsson í færi í kvöld.
Aron Pálmarsson í færi í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég fékk léttan olnboga í lokin en ekkert alvarlegt,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, í samtali við RÚV eftir 29:28-sigur á Hollandi í æsispennandi leik á Evrópumótinu í kvöld.

Mátti sjá blóð á treyjunni hjá Aroni en hann fékk skurð á augabrúnina undir lok leiks. Ísland náði mest fimm marka forskoti í seinni hálfleik en hollenska liðið neitaði að gefast upp og urðu lokamínúturnar æsispennandi. 

„Leikurinn var mjög erfiður. Við vorum með stjórn í 40-45 mínútur en svo skipta þeir í 5-1 og þá riðlast aðeins hjá okkur en samt ekki. Við vorum þó að komast í ágætisfæri. Þeir gerðu áhlaup en sem betur fer datt það okkar megin. Þeir náðu að saxa á okkur þegar við hefðum getað verið meira kúl en að vinna leikinn er það sem skiptir máli og það er það sem við gerðum,“ sagði fyrirliðinn. 

Aron Pálmarsson kátur í leikslok.
Aron Pálmarsson kátur í leikslok. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Aron fór illa með nokkur góð færi í kvöld en kom svo íslenska liðinu til bjargar í blálokin þegar hann vann boltann í lokasókn Hollendinga. „Ég skuldaði aðeins í lokin og náði að redda mér með ólöglegu blokkinni í lokin. Að ná að klára þetta var lykilatriði og nú er úrslitaleikur á móti Ungverjalandi.“

Eins og Aron bendir á þá mætir Ísland heimamönnum í Ungverjalandi á þriðjudag í afar mikilvægum leik. „Það er frábært lið á heimavelli á leiðinni í úrslitaleik á móti okkur sem er geggjað. Ég get eiginlega ekki beðið eftir því. Við vorum að fylgjast með leiknum áðan og við hefðum getað verið komnir í millriðla með stig en þetta spilaðist svona, sem er miklu skemmtilegra. Við viljum vera í þessu fyrir þessa leiki. Það verður frábært að spila úrslitaleik við þá,“ sagði Aron.

mbl.is