Hraðinn verður töluvert meiri

Ómar Ingi kominn í gegnum vörn Portúgals og skorar eitt …
Ómar Ingi kominn í gegnum vörn Portúgals og skorar eitt fjögurra marka sinna í leiknum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon á von á hröðum og skemmtilegum leik gegn Hollandi sem er með annars konar leikstíl en Portúgal. 

Ísland og Holland mætast í B-riðli EM karla í handknattleik í Búdapest í kvöld. 

„Þetta verður öðruvísi. Ég held að það verði töluvert meiri hraði í þessum leik og meiri hlaup. Við þurfum að vera gíraðir í það,“ sagði Ómar Ingi en hollenska liðið er ólíkt liðum Portúgals og Ungverjalands. Hollendingarnir eru lágvaxnari eins og Íslendingarnir en eru með snögga og snarpa menn sem eru góðir í gegnumbrotum. 

„Já já þeir eru með þannig leikmenn. Við þurfum að stúdera það. Þessi lið eru kannski með svipaðan leikstíl og ég held því að þetta verði spennandi,“ sagði Ómar og hann spáir ekki of mikið í því að þjálfari Hollands sé íslenskur, Erlingur Richardsson. 

„Ég pæli ekkert allt of mikið í því en hvort það hjálpi þeim eitthvað veit ég ekki. Þetta verður eins og hver annar handboltaleikur.“

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Ómar Ingi Magnússon. Samvinna þeirra á …
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Ómar Ingi Magnússon. Samvinna þeirra á hægri vængnum mun vonandi skila mörgu mörkum á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar segir það ekkert endilega hafa komið sér á óvart að Holland hafi unnið Ungverjaland. Þótt Ungverjar hafi verið sigurstranglegri þá segist hann hafa vitað að öll liðin í riðlinum væru öflug. 

„Við vissum það fyrirfram að það yrði engin auðveldur leikur í keppninni. Það má segja að það hafi orðið óvænt úrslit hjá Hollendingum í fyrstu umferðinni en samt ekki því þeir voru bara betri í leiknum. Þeir áttu skilið að vinna leikinn og eru búnir að sýna hvað þeir geta. Þeir hafa verið á flugi síðustu ár og bætt sig hellling. Leikurinn á morgun verður því áskorun.“

Eftir að hafa beðið lengi eftir því að fá að hefja leik segir Ómar ágætt að komast í þá rútínu að nú sé spilað annan hvern dag. 

„Nú fer þetta að rúlla og við spilum annan hvern dag. Þannig heldur þetta áfram með undirbúningi fyrir leiki og öllu sem þessu fylgir. Þetta snýst um að mæta tilbúnir og einbeittir í leikina,“ sagði Ómar Ingi í samtali við mbl.is í Búdapest í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert