„Janus Daði hjálpaði okkur mikið“

Viggó Kristjánsson reynir að gefa boltann út í hornið í …
Viggó Kristjánsson reynir að gefa boltann út í hornið í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísland vann Holland á EM karla í handknattleik í Búdapest í kvöld 29:28 eftir mikla spennu. 

Íslenska liðið náði fimm marka forskoti í síðari hálfleik en það fuðraði upp eftir góðan leikkafla Hollendinga. Holland náði þó ekki að komast yfir og Íslendingar lönduðu sigrinum eftir taugastríð á lokamínútunni. 

Mbl.is spurði örvhentu skyttuna Viggó Kristjánsson hvort nauðsynlegt hafi verið að setja fólk í þessa?

„Nei alls ekki,“ sagði Viggó hlæjandi. „Þeir breyttu vörninni í 5-1 og þá fórum við að hiksta. Við erum ótrúlega ánægðir með að vinna en það var kannski óþarfi að hleypa þeim svona svakalega mikið inn í leikinn. En enn og aftur þá var gaman að vinna leikinn.“

Viggó mætir til leiks í kvöld.
Viggó mætir til leiks í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Spurður um hvort efasemdir hafi gripið um sig eftir að Holland náði að jafna og nokkrar mínútur voru eftir sagði Viggó að eftir það hafi leikurinn verið galopinn. 

„Auðvitað kom einhver smá efi undir lokin en mér fannst Janus Daði (Smárason) hjálpa okkur gríðarlega mikið í sókninni á síðustu mínútunum. Hann kom inn á og skapaði mjög góð færi og gerði það mjög vel. Hann hjálpaði mikið til á lokakaflanum en þetta var rosalega tæpt. Dómararnir hefðu mögulega getað dæmt leiktöf á okkur í síðustu sókninni og kannski höfðum við heppnina með okkur.“

Janus Daði leitar að samherja í leiknum í kvöld.
Janus Daði leitar að samherja í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísland er með 4 stig eftir tvo sigra í tveimur leikjum en liðið er þó ekki öruggt um sæti í milliriðlum. Sú staða getur komið upp að Ungverjaland, Ísland og Holland verði öll með 4 stig. 

„Þetta snýst um að ná í stigin. Ef ég les rétt í riðilinn þá verður þetta úrslitaleikur á móti Ungverjum. Ef við vinnum hann þá komust við áfram og tökum 2 stig með okkur í milliriðil. Við fögnum sigrinum í kvöld og leyfum okkur að vera ánægðir en síðan einbeitum við okkur alfarið að Ungverjum frá og með morgundeginum,“ sagði Viggó sem skoraði 2 mörk í leiknum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert